Fara í efni

Í námsferð til Malaga

Nemendur og kennarar í Leifsstöð í gær.
Nemendur og kennarar í Leifsstöð í gær.

Í gær fóru sex nemendur á sjöttu önn í hársnyrtiiðn og kennarar þeirra, Hildur Salína Ævarsdóttir og Harpa Birgisdóttir, í hálfs mánaðar námsferð til Malaga á Spáni. Ferðin er styrkt af Erasmus+ - styrkjaáætlun ESB í mennta-, æskulýðs- og íþróttamálum.

Hildur Salína og Harpa fóru á sama tíma fyrir tveimur árum með fyrsta námshópinn til Malaga og sú ferð tókst mjög vel og var nemendum lærdómsrík. Hildur Salína segir að mikill undirbúningur sé fyrir slíka ferð en það hafi hjálpað mikið að hafa verið þarna áður. Ferðin núna verði í öllum meginatriðum í sama dúr og fyrir tveimur árum. Meðal annars verði farið í Grupo Nebro, sem er einskonar akademía í hársnyrtiiðn og hefur á sínum snærum skólastöðvar, hársnyrtistofur og ýmis önnur fyrirtæki í skyldri þjónustu á Spáni.  

Sem fyrr segir var námsferðin til Malaga fyrir tveimur árum – korter í kóvid, ef svo má segja. Skömmu eftir að hópurinn kom heim aftur fyrir miðjan febrúar 2020 heltók kóvidfaraldurinn heimsbyggðina og hefur ekki sleppt tökunum síðan. Hildur Salína segir að þrátt fyrir að kóvidfaraldrinum sé ekki lokið hafi það ekki dregið kjarkinn úr nemendahópnum að fara út enda séu allir nemendurnir og kennarar þríbólusettir. Engan bilbug hafi heldur verið að finna á gestgjöfunum í Malaga og þeir verið meira en tilbúnir að taka á móti nýjum nemendahóp úr VMA. Í Malaga er, eins og hér á landi, ómikron bróðurpartur kóvidsmita. Þar eru hlutfallslega mun færri smit um þessar mundir en hér á landi.

Hér eru fimm af sex nemendum í Leifsstöð í gær með Hörpu og Hildi Salínu. Sjötti nemandinn, Oksina, fór á undan hópnum til Malaga og kom til móts við hann þar.