Fara í efni

Vel heppnuð náms- og kynningarferð nemenda og kennara í hársnyrtiiðn til Malaga

Nemendur og kennarar í hársnyrtiiðn í Malaga.
Nemendur og kennarar í hársnyrtiiðn í Malaga.

Um liðna helgi komu tíu nemendur í hársnyrtiiðn og kennarar þeirra, Hildur Salína Ævarsdóttir og Harpa Birgisdóttir, til landsins eftir tæplega tveggja vikna, afar vel heppnaða náms- og kynningarferð til Malaga á Spáni. Ferðin var styrkt af Erasmus+ og að undirbúnigi hennar unnu kennnarar í hársnyrtiiðn og Jóhannes Árnason, sem annast erlend samskipti í VMA. Þau settu sig í samband við fyrirtækið Grupo Nebro í Malaga sem hefur á sínum snærum skólastöðvar, hársnyrtistofur og ýmis önnur fyrirtæki í skyldri þjónustu á Spáni og er óhætt að segja að Spánverjarnir hafi tekið afskaplega vel á móti gestunum frá Íslandi.

Þrjár af stúlkunum sem fóru í ferðina, Kamilla Jónsdóttir, Íris Birna Kristinsdóttir og Írena Fönn Klemmensen, eru afar ánægðar með ferðina, hún hafi í alla staði tekist mjög vel og verið þeim fræðandi og upplýsandi. Þær hafi setið fyrirlestra og fengið að fylgjast með verklegri kennslu auk þess að spreyta sig sjálfar. Þær nefna að áhugavert hafi verið að sjá hvernig Spánverjarnir beiti áhöldunum, t.d. skærum, á annan hátt en gert er hér heima og einnig leggi þeir afar mikið upp úr líkamsstöðu. Fyrir vikið sýni tölfræðin að hársnyrtar endist að jafnaði mun lengur í starfi á Spáni en t.d. hér á Íslandi. Þá segja þær Kamilla, Íris Birna og Írena Fönn að það hafi vakið þeirra athygli hversu rólegir og slakir Spánverjarnir hafi verið við vinnu sína, stundaglasið þeirra hafi verið mun rólegra en við eigum að venjast hér á landi.

Almennt talar fólk ekki mikla ensku á þessum slóðum en það kom þó ekki að sök því íslenskur túlkur miðlaði helstu upplýsingum úr fyrirlestrunum og verklegu æfingunum til hópsins. Það hjálpaði líka að Írena Fönn hefur lært spænsku og skildi bróðurpartinn af því sem fram fór, að fagorðunum frátöldum.

Almennt eru þær sammála um að ferðin hafi víkkað út sjóndeildarhring þeirra í hársnyrtiiðninni og þá sé takmarkinu náð. Mikilvægt sé að sjá eitthvað nýtt og safna gagnlegum upplýsingum í sarpinn. Þær sögðu áhugavert að Grupo Nebro starfrækti sérskóla fyrir bæði konuklippingar og herraklippingar. Sérhæfingin sé sem sagt mikil enda markaðurinn mun stærri en hér.

Gist var á íbúðarhóteli í Malaga og var aðbúnaður allur eins og best var á kosið. Lausar stundir voru nýttar til þess að skoða borgina, sem að sögn er afar falleg og rík af sögu. Veðrið var fínt, miðað við árstíma, þegar best lét fór hitinn yfir tuttugu stig yfir daginn en kvöldin voru svöl. Eins og gott íslenskt sumar!

Harpa og Hildur Salína segja að reynslan af þessari fyrstu náms- og kynningarferð til útlanda með útskriftarnema í hársnyrtiiðn í VMA hafi verið einstaklega góð og þær binda vonir við að þetta sé aðeins byrjunin í þessum efnum. Auk kynninga og fyrirlestra á vegum Grupo Nebro segir Harpa að hópurinn hafi heimsótt framhaldsskól í Malaga með áherslu m.a. á hár, förðun og tísku. Þessi skóli, sem Harpa segir áhugavert fyrir VMA að tengjast frekar, hefur ríka umhverfisáherslu í sínu starfi.