Fara í efni

Nemendur og kennarar í hársnyrtiiðn til Malaga á sunnudaginn

Leiðin liggur til Malaga á Suður-Spáni.
Leiðin liggur til Malaga á Suður-Spáni.

Næstkomandi sunnudag fara tíu nemendur á sjöttu önn í hársnyrtiiðn og kennarar þeirra, Hildur Salína Ævarsdóttir og Harpa Birgisdóttir, í tæplega hálfs mánaðar kynningarferð til Malaga á Spáni, eins og greint var frá hér á heimasíðunni í nóvember sl. Þetta er í fyrsta skipti sem nemendur í hársnyrtiiðn í VMA fara í slíka kynningarferð út fyrir landsteinana en áður hafa nokkrir nemendur á þessari námsbraut tekið hluta af starfsnámi sínu á hársnyrtistofum í Þrándheimi í Noregi.

Hópurinn flýgur til London nk. sunnudag og þaðan áfram til Malaga á Suður-Spáni. Hildur Salína og Harpa leituðu til fyrirtækisins Grupo Nebro í Malaga sem hefur á sínum snærum skólastöðvar og ótal margar hársnyrtistofur og ýmis önnur fyrirtæki í skyldri þjónustu á Spáni og þar á bæ hafa verið skipulagðar ýmsar heimsóknir þar sem nemendur og kennarar úr VMA fá að kynnast nýjustu straumum og stefnum í hársnyrtiiðn og sitja ýmsa fyrirlestra og kynningar á þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag og föstudag í næstu viku og aftur á mánudag, þriðjudag og miðvikudag í síðari vikunni – 3., 4. og 5. febrúar. Hópurinn er væntanlegur aftur til Akureyrar laugardaginn 8. febrúar.

Í heimsóknum á hársnyrtistofurnar í Malaga fá nemendur að spreyta sig og þeir safna ýmsum fróðleiksmolum um litafræði, hárfræði og skegg sem víkka út sjóndeildarhring þeirra og nýtast þeim í framhaldinu.

Þessi náms- og kynningarferð er styrkt af Erasmus + og hafa kennnarar í hársnyrtiiðn og Jóhannes Árnason, sem annast erlend samskipti í VMA, unnið að undirbúningi ferðarinnar.

Þó svo að báðir fagkennararnir í hársnyrtiiðninni fylgi útskriftarnemunum til Malaga verður þó ekkert uppihald hjá yngri nemendum á brautinni á meðan. Gestakennarar munu hlaupa í skarðið og miðla nemendum í fyrsta bekk úr sínum viskubrunnum.