Fara í efni

Útskriftarnemar í hársnyrtiiðn í náms- og kynningarferð til Malaga á vorönn

Kristjana Lóa Sölvadóttir er í útskriftarhópnum.
Kristjana Lóa Sölvadóttir er í útskriftarhópnum.

Í lok janúar nk. liggur leið útskriftarhóps í hársnyrtiiðn í VMA ásamt kennurunum Hildi Salínu Ævarsdóttur og Hörpu Birgisdóttur til Malaga á Spáni þar sem nemendur fá að kynnast ýmsu nýju í sínu fagi til viðbótar við það sem þeir hafa lært í námi sínu í VMA. Slík utanlandsferð er nýjung í náminu í hársnyrtiiðn í VMA og er þess vænst að unnt verði að koma henni á sem föstum lið á síðustu námsönn nemenda.

Hildur Salína, brautarstjóri í hársnyrtiiðn, segir að hún hafi farið á kynningarfund Erasmus + - styrkjaáætlunar ESB fyrir mennta- æskulýðs- og íþróttamál - á Akureyri fyrr á þessu ári og síðan hafi kennarar í hársnyrtiiðn farið að skoða ýmsa möguleika í þessum efnum með Jóhannesi Árnasyni, sem hefur yfirumsjón með erlendum samskiptum í VMA. Í framhaldinu hafi verið sótt um styrk úr Erasmus + til þess að kosta námsferðina til Malaga og á dögunum hafi fengist jákvætt svar og því ljóst að farið verður þangað með útskriftarnemana undir lok janúar nk.

Hildur segist afar þakklát fyrir fjárstuðning Erasmus + sem geri mögulegt að fara í þessa ferð með nemendurna. Nú þegar hafa kennarar sett sig í samband við fyrirtækið Grupo Nebro í Malaga, sem er risastór keðja fjölda hársnyrtistofa á Spáni og hún hefur einnig á sínum snærum skólastöðvar. Ætlunin er að nemendurnir kynni sér nýjustu strauma og stefnur í hársnyrtiiðn hjá Grup Nebro og einnig er hugmyndin að þeir sæki ýmis námskeið. Dagskrá ferðarinnar verður í frekari mótun á næstu dögum og vikum en Hildur segir alveg ljóst að hér opnist frábært tækifæri til þess að kynna nýja og áhugaverða hluti fyrir nemendum og víkka út þeirra sjóndeildarhring.

Þetta er fyrsta náms- og kynningarferð sinnar tegundar sem nemendur í hársnyrtiiðn í VMA fara í en nokkrir af nemendum úr þessum útskriftarhópi hafa farið til Þrándheims í Noregi og unnið þar í nokkrar vikur á stofum, sem hluta af námi þeirra í VMA.