Fara í efni

Vel heppnaður forvarnardagur

Frá fyrirlestri Hjalta Jónssonar. Mynd: VDJ
Frá fyrirlestri Hjalta Jónssonar. Mynd: VDJ

Forvarnardagurinn 2017 í VMA sl. miðvikudag tókst mjög vel. Meðal dagskrárliða var fyrirlestur Hjalta Jónssonar sálfræðings þar sem hann talaði fyrst og fremst um HAM - hugræna atferlismeðferð og hvernig hægt er að nýta hana til að takast á við hugsanir með gagnrýnum hætti til að bæta líðan. Hjalti sýndi  fram á hvernig áfengis- og fíkniefnaneysla getur haft áhrif á huga og atgervi hvers og eins og hann útskýrði hugtökin kvíða og þunglyndi. Hjalti náði greinilega mjög vel til nemenda og þeir fengu tækifæri til að tjá sig og spyrja spurninga.

Samstarf við Rósenborg
Valgerður Dögg Jónsdóttir forvarnarfulltrúi VMA segir að í kjölfar forvarnardagsins hafi verið ákveðið að  hefja samstarf við Rósenborg í því skyni að hefja klúbbastarf með nemendum sem eru eða hafa verið í neyslu og vilja vera edrú. Klúbbastarfið verður mótað og þróað af nemendum þar sem hugmyndir þeirra og skoðanir fá að njóta sín. Fyrsta samveran verður nk. mánudagskvöld, 9. október, kl. 21:00 í Rósenborg (á efstu hæð).