Fara í efni

Vann meistaraprófsritgerð um notkun snjalltækja í kennslu

Haukur Eiríksson kennari.
Haukur Eiríksson kennari.

Haukur Eiríksson, kennari við rafiðnaðardeild VMA, hefur undanfarin þrjú ár, samhliða kennslu, stundað meistaranám í menntunarfræðum við Háskólans á Akureyri og lýkur því með útskrift í júní nk. Haukur er menntaður rafeindavirki og tók fyrri hluta námsins í VMA og lauk því í Reykjavík. Í framhaldinu tók hann svokallað raungreinapróf, sem var ígildi stúdentsprófs. Síðar nam hann tæknifræði og starfaði sem tæknifræðingur í mörg ár. En undanfarin þrjú ár hefur hann kennt við VMA og er með meistaranáminu sínu í HA að ljúka kennsluréttindum. Lokaritgerð hans í náminu lýtur að notkun snjalltækja í kennslu.

„Ég gerði svokallaða starfendarannsókn þar sem ég beindi sjónum að því hvernig ég gæti bætt nám nemenda minna með upplýsingatækni. Ég gerði rannsókn í kennslu minni hér í skólanum á haustönn, vann svo úr henni og hef síðan skrifað meistarapófsritgerðina upp úr rannsókninni núna á vorönn. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skoða þessa hluti var sú að ég tók tvo valáfanga í náminu í HA sem voru um notkun upplýsingatækni í námi. Í framhaldinu mótaðist hjá mér hvað ég vildi skoða í lokaverkefninu. Það er mikið talað um það á neikvæðum nótum að nemendur okkar séu öllum stundum í símunum sínum en minna um það hvernig unnt sé að virkja nemendur til þess að nota þessi snjalltæki á jákvæðan hátt í námi sínu.

Ég vildi beina sjónum mínum að notkun á snjalltækjum í námi, hvort sem er símanum, spjaldtölvunni eða fartölvunni. Staðreyndin er sú að þegar nemendur koma í skólann hafa þeir ákveðnar væntingar um námið. Okkar kennaranna er að reyna að mæta þeim væntingum. Í ljósi þjóðfélagsbreytinga og tækniþróunar getum við að mínu mati ekki bara ákveðið að kenna eins og okkur var kennt í gamla daga.

Það má kannski segja að meginstefið í rannsókn minni sé að í kennslunni lögum við okkur í ríkari mæli að þeirri tækni sem er í boði, ekki síst vegna þess að þegar nemendur fara út á vinnumarkaðinn þurfa þeir að nýta sér upplýsingatækni í auknum mæli. Sjálfur starfaði ég töluvert í kerfis- og upplýsingamálum og safnaði þá ýmsum öppum í símann minn sem ég notaði í mínu daglega starfi. Það sama þarf að gerast með nemendur, þeir þurfa að finna að þessi snjalltæki nýtist þeim í eitthvað meira en leiki.

Námið hér er bæði verklegt og bóklegt og ég hef oft komist að raun um að sumir nemendur sem eru virkir í verklegum tímum missa fljótt athyglina þegar kemur að bóklega hlutanum. Spurningin snýst um að reyna að brjóta upp bóklega fyrirlestra og virkja nemendur í tímum og halda athygli þeirra á kennslustundunum. Ég hef prófað mig áfram í gagnvirkni í kennslunni þar sem nemendur eru virkir þátttakendur á sínu tæki, tölvunni eða símanum, í því að svara spurningum, teikna o.s.frv. Með þessu móti er auðvelt að fylgjast með því hvort nemendur séu virkir í tímum og um leið hvernig þeim gengur að skilja og tileinka sér námsefnið," segir Haukur.

Í meistaraprófsritgerð sinni, sem nefnist Nýjar væntingar. Hvernig get ég nýtt upplýsingatækni tið að bæta nám nemenda minna? dregur Haukur saman í nokkrar setningar það sem hann telur áhugaverðast úr rannsókn sinni:

Helstu ályktanir sem draga má af rannsókninni eru að skipulag og kennslufræðin skipta höfuðmáli þegar nota á upplýsingatækni til að bæta nám. Huga þarf sérstaklega að tímastjórnun og aðlögun kennsluáætlunar að breytilegum vinnuhraða nemenda. Upplýsingatækni sem býður upp á gagnvirkni í kennslustundum stuðlar að virkni nemenda og skapar einstakt tækifæri til endurgjafar í formi leiðsagnarmats. Það kemur einnig fram að tæknilega flókin verkefni geta dregið úr sjálfstrausti kennarans og um leið komið niður á upplifun nemenda. Nemendur telja sjálfir að notkun á upplýsingatækni auki áhuga og hjálpi þeim að halda athyglinni í kennslustundum. Skemmtun nemenda var sá þáttur sem hafði áhrifa á alla aðra þætti í upplifun nemenda í kennslustundunum.

„Að mínu mati er unnt að nýta sér þessa tækni í flestum námsgreinum en að sjálfsögðu krefst það mismunandi útfærslna og kennararnir þurfa að prófa sig áfram. Hluti af verkefni mínu var að skrá niður upplifun mína á meðan ég var að prófa mig áfram með tæknina. Ein af stóru hindrunum í því að nota upplýsingatæknina er óöryggi kennara með að nýta sér hana. Öllum breytingum og áskorunum fylgir óvissa. Það átti við mig eins og alla aðra kennara að ég fór upp og niður allan tilfinningaskalann þegar ég var að prófa mig áfram. En með reynslunni og þjálfunni kom þetta smám saman. En sannast sagna held ég að í raun krefjist þetta ekki meiri undirbúnings og vinnu en þegar kennarar vinna glærur frá grunni, þetta er fyrst og fremst önnur hugsun og nálgun.

Ég vildi líka með rannsókninni komast að raun um hver stafræn hæfni nemenda væri. Oft heyrist að börn og unglingar séu foreldrum fremri í notkun þessara tækni. En staðreyndin er sú að hæfni unga fólksins í þessum efnum snýr fyrst og fremst að þeirra áhugamálum. Þó má fullyrða að nemendur búa almennt yfir mikilli hæfni í notkun þessarar snjalltækni og þeir hafa væntingar um að geta nýtt sér hana í námi. 

Ég geri mér alveg grein fyrir því að sumir kennarar veigra sér við því að nýta sér upplýsingatækni í kennslu vegna þess að þeir óttast að þeir muni á einhverjum tímapunkti lenda eilítið upp á skeri með tæknina. Einnig er það nú svo að vegna fjárskorts hafa tölvumál skólanna, þar á meðal hér í VMA, ekki verið með þeim hætti sem við vildum sjá. En sem betur fer er smám saman verið að ráða bót á því.

Ég sé fyrir mér að upplýsingatæknin muni nýtast vel í kennslu í framtíðinni í bland við annað. Það er ekki svo að hún muni alfarið taka yfir, alls ekki. Starf kennara hefur breyst og mun breytast. Við þurfum bara að átta okkur betur á því að upplýsingarnar eru til staðar og okkar er að hjálpa nemendum að nýta sér þær. Í kennslunni þegar ég gerði rannsóknina notaði ég gagnvirka fyrirlestra og hermilíkön þar sem hægt er að sýna ýmislegt í sýndarumhverfi. Slíkir gagnabankar eru aðgengilegir án endurgjalds á netinu. Ég notaði líka vefsíðuna www.kahoot.it, sem er gagnvirkur spurningavefur, með góðum árangri.

Almennt hef ég komist að raun um að nemendur bíða eftir því að geta notað snjalltæki sín í náminu, það eru væntingar þeirra. Við kennararnir megum að mínu mati ekki horfa fram hjá því eða líta á þessi tæki sem vandamál,“ segir Haukur Eiríksson.