Fara í efni

Úr skeggklippingunni í göngur

Halldís Gríma snyrtir módelið sitt.
Halldís Gríma snyrtir módelið sitt.

„Framtíðin er óráðin en þetta hefur verið mjög skemmtilegt,“ segir Halldís Gríma Halldórsdóttir, sem mun útskrifast úr hársnyrtiiðn um jólin. Í gær þegar litið var inn í tíma hjá nemendum í hársnyrtiiðn voru þeir að skeggklippa nokkur „módel“.

„Ég kom hingað úr 10. bekk á sínum tíma en komst ekki til að byrja með inn í þessa deild. Síðan hef ég tekið námið með hléum, m.a. vegna þess að ég eignaðist barn, stúlku sem nú er orðin þriggja ára gömul. En það verður gott að klára námið og ég ætla mér að hvíla mig á skóla í bili,“ segir Halldís Gríma sem stefnir sömuleiðis að því að ljúka stúdentsprófi um jól.

Hún er Öxfirðingur, sveitastelpa frá Bjarnastöðum, rétt austan við Jökulsá á Fjöllum, þar sem foreldrar hennar reka myndarlegt sauðfjárbú og eru auk þess með fjölda hrossa. Að lokinni kennslu í gær lá leið hennar í heimahagana til þess að taka þátt í fyrstu göngum. Í gær héldu gangnamenn á hestum og fjórhjólum upp á Búrfellsheiði og munu smala í dag og á morgun. „Þetta er ómissandi hluti af þessum árstíma og mikilvægt að taka þátt í þessu með mínu fólki heima,“ segir Halldís Gríma.

Á meðfylgjandi mynd er Halldís Gríma að leggja lokahönd á „módelið“ sitt, Björgvin Óla Árnason.