Fara í efni

Úr rafeindavirkjun í VMA í geimverkfræði í Arizona

Sigurður Bogi við skilti háskólans í Arizona.
Sigurður Bogi við skilti háskólans í Arizona.

Sigurður Bogi Ólafsson brautskráðist sem stúdent og rafeindavirki frá VMA í desember 2021. Núna er hann á annarri önn í BS-námi í geimverkfræði við Embry-Riddle Aeronautical University í Arizona í Bandaríkjunum. Sigurður er fyrsti Íslendingurinn sem stundar þetta nám við skólann og í hópi fárra Íslendinga sem hafa lagt stund á Aerospace engineering eða geimverkfræði.

Sigurður Bogi var heldur betur lykilmaður í öllum tæknimálum í viðburðum á vegum Þórdunu og Leikfélags VMA á námstíma sínum í VMA. Að brautskráningu lokinni og þar til hann fór til Arizona í BS-nám í geimverkfræði sl. haust starfaði hann hjá Exton, sem er sérhæft fyrirtæki í hljóð-, ljós- og myndlausnum. Það þurfti því ekki alveg að koma á óvart að eitthvert tækninám yrði niðurstaðan hjá Sigurði Boga – en það óvænta var að geimverkfræði skyldi verða ofan á.

„Í stórum dráttum tekur þetta nám til allskonar verkfræði sem tengist geimferðum og hlutum í geimnum – gervihnöttum og geimförum. Ég þekkti ekkert til þessa skóla áður en ég sótti um en hnaut um hann þegar ég var að skoða youtube myndband undir lok náms míns í VMA. Ég ákvað að senda umsókn í nóvember 2021 og fékk skólavist. Þá var ekki aftur snúið.
Ég hef lengi haft áhuga á ýmsu er lýtur að geimvísindum en það var ekki fyrr en á síðasta ári mínu í VMA sem ég áttaði mig á því að það væri raunverulegur möguleiki að mennta mig í þessum fræðum.
Mér líst afar vel á þetta nám og það hefur til þessa gengið mjög vel. Á þessu fyrsta ári fara allir í ýmis grunnfög en síðan er val um að fara annars vegar í Aeronautical, þar sem áherslan er á flugvélar og loftför, eða hins vegar Astronautical, sem ég mun velja, þar sem áherslan er á geimflaugar og geimtengda tækni.
Mér finnst ég standa mjög vel að vígi og hafa fengið góðan grunn í þetta nám í VMA. Á fyrstu önninni vorum við í mikilli eðlisfræði og stærðfræði og mikið af námsefninu er upprifjun úr VMA. Einnig hef ég verið í tölvunarfræði og tölvunarreikningi þar sem ég þarf að nota allskonar tölvutungumál. Þar nýtist mér mjög vel grunnurinn sem ég fékk í forrituninni í rafeindavirkjuninni í VMA.
Þessi skóli stendur mjög framarlega í grunnámi á þessu sviði en hann býður ekki upp á meistaranám. Það þarf ég að sækja annars staðar,“ segir Sigurður Bogi.

Til þess að fá starfsréttindi sem verkfræðingur þarf Sigurður Bogi að fara áfram í mastersnám. Eins og er segir hann að hugur hans standi til þess. Hins vegar sé mjög mikil spurn í t.d. Bandaríkjunum eftir fólki með BS-menntun á þessu sviði og því gæti hann að óbreyttu fengið vinnu að loknu BS-námi í Bandaríkjunum, ef hann kysi það. „Ég ætla að einbeita mér að því að klára BS-námið og síðan tek ég ákvörðun um í hverskonar mastersnám ég fer í framhaldinu. Það er mikill uppgangur um þessar mundir hjá geimtengdum fyrirtækjum hérna í Bandaríkunum og reyndar einnig á meginlandi Evrópu. Tækniframfarirnar eru miklar og geimiðnaðurinnn vex að sama skapi. Það er mikill vöxtur í smíði geimstöðva. Nú er alþjóðlega geimstöðin að ljúka sínum lífstíma og því er áhersla lögð á að finna nýjar leiðir til þess að halda fólki á sporbraut um jörðu. Þetta er mikill suðupottur og það verða því á næstu árum miklar framfarir á þessu sviði og ýmislegt sem ég hef verið að lesa mér til um er eins og í framtíðarbíómynd. Þegar verður farið að bjóða upp á reglulegar ferðir með fólk út í geiminn hef ég trú á að það verði gríðarlega hraður vöxtur á þessu sviði.“

Sigurður Bogi segir að eins og er sé lítill markaður fyrir geimverkfræðinga á Íslandi en hins vegar sé námið byggt þannig upp að það nýtist vel í margháttaða verkfræði. Geimverkfræðingar geti því starfað á almennum verkfræðistofum við ýmislegt sem ekki beint sé tengt geimvísindum. Þess séu mörg dæmi að fólk með þessa menntun starfi ekki við geimferðir eða gervihnetti en fari í hönnun bíla, loftfara, brúa, vega o.s.frv.

En hvernig gengur háskólalífið fyrir sig í Arizona? Vel, segir Sigurður Bogi og segist vera mjög sáttur með skólann og dvölina. Skólinn er í Prescott, um 40 þúsund manna bæ, í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð norður af höfuðborg Arizonaríkis – Phoenix. Mikil áhersla er á háskólanám í bænum, þar eru tveir háskólar, annars vegar skóli Sigurðar Boga, Embry-Riddle Aeronautical University, og hins vegar Yavapai Community College, háskóli með almennt nám.

„Þetta hefur gengið betur en ég þorði að vona og aðlögunin að náminu tók styttri tíma en ég hefði getað búist við. Vissulega eru ýmis hugtök í tæknienskunni sem ég hafði ekki lært en það hefur ekki verið nein fyrirstaða.“

Sigurður segir að auðvitað sé nóg að gera í náminu en hann gefi sér þó tíma til að njóta útivistar í fallegri náttúru skammt frá háskólasvæðinu. Prescott er í um eitt þúsund metrum yfir sjó, sem þýðir að í venjulegu ári frystir þar og snjóar annað slagið. Yfir sumarmánuðina segir hann hitastigið í Prescott vera mun bærilegra en til dæmis í höfuðborginni Phoenix.

Sigurður Bogi var virkur í félagsmálunum á árum sínum í VMA og hann heldur uppteknum hætti í Arizona. Er þegar farinn að starfa í svokölluðum eldflaugaklúbbi, sem hefur á dagskránni að smíða minni eldflaugar. Einnig segist hann vera kominn í gervihnattaklúbb er vinni að því að smíða gervihnött sem síðan verði skotið út í geiminn í vor.