Fara í efni

Úr gullsmíðinni í námsráðgjöf í VMA

Helga Júlíusdóttir.
Helga Júlíusdóttir.

Það eru engir tveir dagar eins í vinnunni hjá Helgu Júlíusdóttur og Svövu Hrönn Magnúsdóttur, náms- og starfsráðgjöfum VMA. Helga segir að í eðli sínu sé starfið fjölbreytt enda sé það svo að í stórum skóla eins og VMA, með á fjórða tug námsbrauta, séu verkefnin margvísleg.

Fyrsta kennsluvikan á nýrri önn. Nemendur eru að fóta sig í nýjum áföngum sem kenndir eru á önninni. Sumir þurftu að fá breytingar á stundatöflum sínum, af ýmsum ástæðum, og frestur til þess rann út í gær. Við að púsla saman stundaskrám sínum eða náminu almennt leita nemendur fyrst og fremst til annars vegar sviðsstjóra verk- og fjarnáms og stúdentsprófsbrauta og hins vegar námsráðgjafanna Helgu og Svövu Hrannar. Að mörgu er að hyggja við skipulagningu námsins og marga hnúta þarf að hnýta en allt gengur þetta upp að lokum.

Það var ekki beint á listanum hjá Helgu á hennar yngri árum að starfa sem náms- og starfsráðgjafi. Stefnan var tekin eitthvert allt annað. Helga var eitt ár í MA og tók síðan grunndeild málmiðnaðar í VMA veturinn 1994-1995 sem grunn að námi í gullsmíði. Síðan lá leiðin til Danmerkur þar sem Helga var eitt ár í menntaskóla. Draumurinn um að verða gullsmiður lifði og hún horfði í kringum sig með nám í Danmerku en úr varð að hún fór yfir til Svíþjóðar og innritaðist í verkmenntaskóla, lauk þar á fjórum árum stúdentsprófi af gullsmíðalínu. Náminu lauk hún 2001. Eftir þetta starfaði Helga í mörg ár sem gullsmiður á Akureyri, flutti aftur til Danmerkur og starfaði þar á skrifstofu í fimm ár, kom síðan aftur til Akureyrar og hélt áfram þar sem frá var horfið í gullsmíðinni.

Það kom síðan að því að Helga fékk löngun til þess að skipta alveg um gír. Hún innritaði sig í sálfræði við Háskólann á Akureyri og vann á sama tíma á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Helga hafði alltaf í huga að fara í klíníska sálfræði og starfa sem sálfræðingur að BA-náminu loknu en fyrir hvatningu Ásdísar Birgisdóttur, sem var áður námsráðgjafi í VMA, ákvað Helga að taka meistaranám í náms- og starfsráðgjöf. Og hlutirnir æxluðust svo að Helga tók við starfi Ásdísar í VMA, samhliða því að ljúka náminu í HÍ.

Helga kom til starfa í VMA árið 2019 og hefur því náð einungis einni heilli kóvidlausri önn sem námsráðgjafi.

Helga og Svava taka á móti nemendum á skrifstofum sínum og einnig hitta þær nemendur á fyrsta ári í kennslustundum í lífsleikni, bæði á haust- og vorönn, til þess að kynna þá þjónustu sem þær veita og fræða nemendur um ýmislegt gagnlegt. Helga vill hvetja nemendur og forráðamenn þeirra til þess að hafa samband við hana og Svövu ef ýmsa spurningar vakna. Námsráðgjafarnir hafa viðtalstíma og þess utan segir Helga að nemendur geti alltaf bankað upp á.

„Starf okkar er mjög fjölbreytt. Nemendur koma til okkar m.a. vegna skipulags náms þeirra og námsframvindu og þess eru dæmi að ég hitti nemendur vikulega til þess að taka stöðuna með þeim. Í aðdraganda prófa höfum við verið með aðstoð fyrir nemendur sem finna til prófkvíða. Við sjáum um námskynningar fyrir nemendur efstu bekkja grunnskóla, bæði förum við út í skólana og höldum kynningar þar eða við tökum á móti hópum úr grunnskólunum. Fyrir áramót tókst okkur að taka á móti 10. bekkingum úr grunnskólum Akureyrar og það er á dagskránni að vera með kynningar í næsta mánuði fyrir 9. bekkinga á Akureyri og nemendur utan Akureyrar. Sem stendur er óvissa með þetta vegna kórónuveirufaraldursins en við tökum stöðuna þegar nær dregur. Það er nokkuð snúið að skipuleggja hlutina fram í tímann sem stendur,“ segir Helga.

Sem að framan greinir er náms- og starfsferill Helgu breiður og það segir hún að hafi komið sér vel þegar hún hóf störf við VMA, í skóla sem hafi bæði í boði bók- og verknám af ýmsum toga.

Námsráðgjafar skólans vinna náið með sálfræðingi skólans að ýmsum málum nemenda og í viku hverri er teymisfundur þeirra þriggja með hjúkrunarfræðingi og forvarnafulltrúa skólans. Þessir fundir segir Helga að séu mjög mikilvægir til þess að ræða og bera saman bækur í þeim fjölmörgu og ólíku málum sem séu á borðinu á hverjum tíma.

Gullsmiðurinn Helga hefur vikið þeim lífskafla til hliðar og náms- og starfsráðgjafinn hefur tekið yfir. Tæki og tól til gullsmíði eru á sínum stað upp í hillu – í bili að minnsta kosti.