Fara í efni

Umsóknarfrestur um matsönn til 20. janúar

Núna á vorönn er í fjórða skipti boðið upp á svokallaða matsönn VMA þar sem nemendum 10. bekkjar er gefinn kostur á að sækja áfanga í fjarnámi í VMA, enda sæki þeir líka um VMA í forinnritun í framhaldsskóla. Matsönn nýtist m.a. þeim nemendum mjög vel sem hafa í hyggju að flýta fyrir sér í framhaldsskólanum og eru þess nokkur dæmi að nemendur sem hafa farið í gegnum matsönn ljúki námi hér í VMA á þremur árum í stað fjögurra. Umsóknarfrestur um matsönn rennur út 20. janúar nk.

Núna á vorönn er í fjórða skipti boðið upp á svokallaða matsönn VMA þar sem nemendum 10. bekkjar er gefinn kostur á að sækja áfanga í fjarnámi í VMA, enda sæki þeir líka um VMA í forinnritun í framhaldsskóla. Matsönn nýtist m.a. þeim nemendum mjög vel sem hafa í hyggju að flýta fyrir sér í framhaldsskólanum og eru þess nokkur dæmi að nemendur sem hafa farið í gegnum matsönn ljúki námi hér í VMA á þremur árum í stað fjögurra. Umsóknarfrestur um matsönn rennur út 20. janúar nk.

Það má líta á matsönn sem einskonar aukaönn, ætluð nemendum í 10. bekk grunnskóla sem ætla að sækja um skólavist í VMA á haustönn og vilja nýta sér sveigjanleika áfangakerfisins til þess að flýta námi sínu til almenns stúdentsprófs, stúdentsprófs að loknu starfsnámi eða annarri samsetningu af framhaldsskólanámi.

Nemendum stendur til boða að taka áfanga í kjarnagreinum eins og ensku (ENS103), íslensku (ÍSL103), dönsku (DAN102) og stærðfræði (STÆ102) en einnig aðra áfanga eftir samkomulagi eins og þriðja tungumál eða náttúruvísindagreinar, enda hafi nemandi stundað nám í þeim greinum á efsta stigi grunnskóla. Nemendur sem sækja um matsönn þurfa  að hafa náð að jafnaði 8,0 í einkunn í 9. og/eða 10. bekk í þeim greinum sem sótt er um.

Nemendur stunda síðan fjarnám í þeim greinum sem þeir velja að taka á matsönn, þ.e. núna á vorönn, og hefst það samhliða öðru fjarnmámi í VMA 28. janúar nk. Námsefni í áðurgreindum grunnáföngum í kjarnagreinum er að stórum hluta það sama og nemendur hafa tekið í grunnskólanum, enda er gert ráð fyrir að grunnáfangarnir séu meira og minna upprifjun á því sem nemendur hafa tekið í grunnskólanum. Eins og aðrir nemendur taka nemendur á matsönn próf í byrjun maí í þeim áföngum sem þeir hafa valið að taka og fá þær einingar metnar þegar reglulegt nám í VMA hefst að hausti. Þeir nemendur sem hafa þannig lokið grunnáfanga eða -áföngum geta því innritast í framhaldsáfanga  í viðkomandi fagi eða fögum.

Nemendur á matsönn greiða kr. 16.000, sem er innritunargjald haustannar og gjald fyrir nýnemaferð á haustönn.  Með öðrum orðum; nemendur á matsönn hafa þegar greitt fyrir inntritunargjald komandi haustannar og fyrir árlega nýnemaferð á haustönn.

Svava Hrönn Magnúsdóttir og Ásdís Birgisdóttir, námsráðgjafar við VMA, segja að jafnaði hafi um 10 nemendur skráð sig á matsönn á ári hverju frá því að hún hófst fyrst á vorönn 2011. Reynslan af þessu fyrirkomulagi segja þær að hafi verið almennt mjög góð og einstaklega gaman hafi verið að fylgjast með námsframvindu þeirra nemenda sem hafi valið að fara þessa leið.

Fyrir áramót var sent kynningarbréf til forráðamanna nemenda í 10. bekk á upptökusvæði VMA þar sem þessi kostur er kynntur.

Sem fyrr segir er umsóknarfrestur til 20. janúar og er hægt að nálgast umsóknarblað hér á heimasíðunni.  Eins og þarna kemur fram þarf viðkomandi nemandi að skrifa undir umsóknina, sömuleiðis forráðamaður og auk þess þarf fulltrúi viðkomandi grunskóla að staðfesta að nemandinn hafi náð tilskilinni lágmarkseinkunn í því fagi sem sótt er um að stunda á matsönn.

Til frekari glöggvunar á því hvað matsönn er og hvernig hún virkar fyrir nemendur er vert að benda á viðtöl við nokkra nemendur sem fóru þessa leið sem voru birt hér á heimasíðunni á haustönn.

Allar frekari upplýsingar um matsönn veita námsráðgjafarnir Svava Hrönn (svava@vma.is) og Ásdís (disa@vma.is) og Benedikt Barðason áfangastjóri (bensi@vma.is).