Fara í efni

Tvöföld amma í sjúkraliðanámi

Hulda Hrönn Ingadóttir.
Hulda Hrönn Ingadóttir.

Fjörutíu og fimm ára gömul hóf Hulda Hrönn Ingadóttir sjúkraliðanám í VMA sl. haust. Hún hefur það að leiðarljósi að aldrei sé of seint að setjast á skólabekk. Hún byrjaði í VMA að loknum grunnskóla á sínum tíma en ástin tók völdin og í hönd fóru ár fjölskyldulífs og barnauppeldis. Það er mikið púsluspil að láta 75% vaktavinnu á sambýli ganga upp á móti fullu námi í VMA en með miklu skipulagi og hvatningu segir hún það ganga upp. Og yfir það að setjast á skólabekk á ný, orðin tvöföld amma, er að sögn Huldu Hrannar aðeins eitt orð; æðislegt.

„Skólasaga mín er nokkuð löng. Ég kom fyrst hingað í Verkmenntaskólann að loknum grunnskóla haustið 1986 og fór á verslunarbraut. Þá var verið að byggja hús skólans hér á Eyrarlandsholti og við vorum í tímum hér og á mörgum öðrum stöðum úti í bæ. Ég er sveitastelpa, frá Neðri-Dálksstöðum á Svalbarðsströnd, og sannast sagna var það svo að þegar ég kem hingað í bæinn úr sveitinni á sínum tíma var margt annað en skólinn sem heillaði mig. Ég hætti því námi eftir nokkra mánuði,“ segir Hulda Hrönn. Hún eignaðist fljótlega kærasta, sem er maður hennar í dag, Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, og Hulda varð ófrísk af eldra barninu þegar hún var nítján ára gömul (Pétur var þá sautján ára). „Þá tók við hið daglega fjölskyldulíf og í raun var ekkert pláss fyrir meiri skóla á þessum tíma. Strákurinn okkar fæddist fyrir tímann og við vorum meira og minna með hann inni á spítala fyrstu tvö árin. Ég kom síðan aftur í VMA 1997 frekar en 1998 og innritaði mig í tvö fög til hliðar við vinnu á Greifanum. Ég sá hins vegar fljótlega að þetta gæti ekki gengið upp og því færði ég mig yfir í fjarnám á tungumálabraut árið 2001. Á þessum tíma vann ég á Ferðaskrifstofu Akureyrar. Ég var síðan í tveimur til þremur áföngum í fjarnámi til 2006 en ákvað þá að fara í söngnám í Tónlistarskólanum á Akureyri. Ég hafði sungið í kór og fannst það gaman og langaði að bæta þekkingu mína í öndun og ýmsum grunnatriðum í söng. Það varð hins vegar úr að ég fór í framhaldspróf í söng og lauk því fyrir um ári síðan. Á þeim tímapunkti hugsaði ég með mér að nú væri ég hætt þessu skólabrölti til hliðar við daglega vinnu. En þá komu fréttir af þeim fyrirætlunum menntamálaráðherra að þrengja kosti 25 ára og eldri til náms í framhaldsskólum. Þessar fréttir voru ákveðið spark í rassinn og ég hugsaði með mér að nú yrði ég að drífa mig í að nýta það nám sem ég hafði þó lokið í VMA. Niðurstaðan var sú, eftir samtöl við bæði manninn minn og yfirmanninn á sambýlinu þar sem ég er í 75% vinnu, að sækja um sjúkraliðanám hér í VMA. Til þess að ná að koma þessu heim og saman færðust fleiri vaktir hjá mér á sambýlinu yfir á helgarnar. Ég hóf nám sl. haust og er því núna á annarri önn. Auðvitað er þetta heilmikið púsluspil og ég viðurkenni að sumir dagar geta verið strembnir. Á mánudögum er ég til dæmis í skólanum frá 08:15 til 16:10 og einn dag á sex vikna fresti kem ég beint af næturvakt á mánudagsmorgni í skólann!“ segir Hulda. Á þessari önn er hún í 22 einingum og er harðákveðin í því að ljúka sjúkraliðanáminu – og jafnframt að ljúka stúdentsprófi því í gegnum árin hefur hún lokið fjölda eininga sem nýtast til stúdentsprófs.  „Takmarkið er að ljúka bæði sjúkraliðanáminu og jafnframt stúdentsprófi,“ segir Hulda.

„Mér finnst sjúkraliðanámið æðislegt og það nýtist mér vel í þeim störfum sem ég er að fást við í dag. Auðvitað er þetta heilmikið púsl og skipulag en þetta gengur upp. Ég er heppin með það að ég er ekki mikil sjónvarpsmanneskja og nenni heldur ekki að eyða miklum tíma í tölvunni. Ég nýti því kvöldin og allar þær stundir sem gefast þegar ég er ekki að vinna til þess að einbeita mér að náminu. Ég held að megi segja að maður hafi aðra sýn á hlutina þetta fullorðin. Ýmsir hlutir í náminu sem ég mér hefði ekki þótt merkilegir eða áhugaverðir þegar ég var sextán ára finnast mér mjög merkilegir í dag. Mér fannst til dæmis alveg hrikalega erfitt að læra sögu. Þegar ég fór í tónlistarnámið þurfti ég að læra tónlistarsögu og til þess varð ég að hella mér í heilmikið grúsk. Þá komst ég að því að saga er síður en svo leiðinleg. Og það sama get ég sagt um fjölmargt sem ég er að læra núna,“ segir Hulda.

Sem fyrr segir var Hulda Hrönn ung að árum þegar hún eignaðist fyrra barnið þeirra Péturs, Birki Örn, sem nú starfar á markaðsskrifstofunni á Hótel Kea. Hann á tvö börn sem þýðir að sjúkraliðaneminn Hulda er tvöföld amma. „Ég er vissulega eldri en skólasystkini mín hér í VMA en ég upplifi mig ekki eins og ömmu þeirra. Þessir ungu nemendur taka mér almennt mjög vel. Ég hef kannski aðeins meiri lífsreynslu en mörg skólasystkni mín og aðra sýn á ýmsa hluti af þeim sökum og mögulega annan orðaforða,“ segir Hulda og hlær og bætir við að henni þyki virklega gaman að sitja í íslenskutímum með Fanneyju dóttur sinni, sem á skammt í land með nám sitt á náttúrufræðibraut til stúdentsprófs. Fanney er 21 árs gömul, barneignakaflanum lauk Hulda á sínum tíma þegar hún var 24 ára gömul. „Þá gekk hreinlega ekki upp að halda áfram námi vegna þess að aðrir hlutir urðu að hafa forgang. Það er gríðarlega mikils virði að geta komið aftur svona löngu síðar og aflað sér þessarar þekkingar,“ segir Hulda Hrönn Ingadóttir.