Fara í efni

Trommar og smíðar trommur í frístundum

Þorleifur Jóhannsson trommari og trommusmiður
Þorleifur Jóhannsson trommari og trommusmiður

Eins og vera ber eru kennarar við VMA hæfileikaríkir og þeir fást við ýmislegt utan hins hefðbundna skólastarf. Þorleifur Jóhannsson, kennari við byggingadeild, hefur spilað á trommur frá unga aldri í ýmsum hljómsveitum. Og enn er hann að tromma, núna aðallega í hljómsveitinni Einum og sjötíu. Áhugann á trommuleik og smíðahæfileikana sameinar Þorleifur í smíði á trommum – fyrst og fremst fyrir sjálfan sig en einnig hefur hann lagað trommur fyrir aðra. Þorleifur veit ekki til þess að margir hafi fengist við trommusmíði hér á landi.

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að prófa að smíða trommur var fyrst og fremst sú að mig langaði til komast að því hvort ég yfirleitt réði við það verkefni. Á undanförnum árum hef ég líklega smíðað um tíu trommur fyrir sjálfan mig. Ég byrjaði á einni trommu og hún tókst vonum framar og það varð til þess að ég prófaði aftur og síðan koll af kolli. Ég hef gert allskonar tilraunir með viðartegundir í trommurnar og sumar tegundir hafa bara alls ekki virkað. Birkið hljómar mjög vel og það sama má segja um eikina. Ég hef líka prófað að blanda saman viðartegundum og það getur virkað ágætlega,“ segir Þorleifur og bætir við að hann sé oft beðinn um að gera við eða lagfæra trommur. Til dæmis hefur hann að undanförnu verið að lagfæra bassatrommu fyrir annan trommuleikara – aðgerð sem fyrst og fremst fólst í því að minnka trommuna.

Hann fer ekki dult með að þetta sé mikil nákvæmnis- og þolinmæðisvinna. „Já, sannarlega. Þvermál trommanna þarf t.d. að vera hárnákvæmt þannig að skinnið passi á þær. Hringurinn verður að vera algjörlega jafn og dýptin jöfn allan hringinn upp á millimetra. Ég hef verið að gera tilraunir með þykktina á hringjunum, hún ræður töluverðu um hljóminn,“ segir Þorleifur.

„Ég hef spilað á trommur nánast allt mitt líf og er því einlægur trommuáhugamaður. Það lá því beint við að nýta smíðahæfileikana til þess að prófa að smíða trommur,“ segir Þorleifur.