Fara í efni

Þurfum að ná fram nauðsynlegum viðhorfsbreytingum

Frá baráttufundinum á Ráðhústorgi í morgun.
Frá baráttufundinum á Ráðhústorgi í morgun.

Þar sem vetrarfrí var í framhaldsskólunum á Akureyri, VMA og MA, í gær, þegar konur um allt land efndu til kvennafrídags ákváðu konur í báðum skólum að efna til sameiginlegs baráttufundar á Ráðhústorgi í dag, þriðjudag, þar sem ávörp voru flutt, sungið o.fl. Kröfuspjöld voru á lofti þar sem jafnréttis – ekki síst launajafnréttis – var krafist, en á það var lögð mikil áhersla í barátturæðum kvenna á kvennafrídaginn í gær.

Ein þeirra kvenna sem fluttu ræður á fundinum á Ráðhústorgi fyrir hádegi í dag var Hildur Friðriksdóttir, sem starfar á bókasafni VMA. Hildur Hildur vann meistarprófsverkefni sitt við HA sl. vor um svokallað hrelliklám þar sem hún beindi m.a. sjónum að því hvernig íslensk löggjöf skilgreinir hrelliklám og jafnframt innihaldsgreindi hún íslenskt hrelliklám á vefsíðunni Chansluts.com.

Eftirfarandi ávarp flutti Hildur á útifundinum á Ráðhústorgi í morgun:

Kæru baráttusystur,

Við erum hér samankomin í dag til þess að minnast þess, að þann 24. október, árið 1975, lögðu fjölmargar konur niður störf í þeim tilgangi að krefjast rétt­inda og launa til jafns á við karla. Við erum sömuleiðis hingað samankomin í dag, til þess að benda á þá sorglegu staðreynd að nú, 41 ári síðar, séum við konur enn í þeirri stöðu að þurfa að berjast fyrir þessum sömu réttindum. Réttindum sem ættu að vera algjörlega sjálfsögð og voru fest í lög árið 1961, en með þeirri lagasetningu var stefnt að því að fullum launajöfnuðu yrði náð árið 1967.

Í dag er staðan hins vegar sú, að meðalatvinnutekjur kvenna eru ekki nema um 70% af meðalatvinnutekjum karla og kannanir sýna að kynbundinn launamunur innan fyrirtækja og stofnana er á bilinu 7-18%. Og svona áður en einhver fer góðfúslega að reyna að benda mér á að það eigi sér allt saman eðlilegar skýringar, þar sem karlar vinni jú alla jafna lengri vinnudag, vinni meiri yfirvinnu og að við konur séum bara ekki nægilega duglegar við að bera okkur sjálfar eftir launahækkunum, þá er best að undirstrika það, að þegar talað er um kynbundinn launamun er átt við þann mun sem er á launum karla og kvenna sem ekki er hægt að útskýra með ólíkri menntun, aldri, starfsaldri, starfshlutfalli, starfsstétt, yfirvinnu eða vaktaálagi og verður því ekki skýrður á annan hátt en þann að kyn ráði þeim mun. Þannig að þrátt fyrir það sem ýmsir vilja halda fram er kynbundinn launamunur í íslensku samfélagi staðreynd!

En hvers vegna skyldi okkur ganga svona illa að vinna á þessum augljósa vanda sem kynbundinn launamunur er?

Einhverjum kann kannski að þykja það ótrúlegt, en kynbundinn launamunur verður ekki til í einhvers konar félagslegu tómarúmi. Með öðrum orðum þá á hann sér í raun mjög eðlilegar skýringar. Kynbundinn launamunur er nefnilega ein skýrasta birtingarmynd þess að konur eru ekki metnar til jafns á við karla í samfélagi okkar.  Þannig að ef við ætlum okkur raunverulega að laga þennan launamun þá verðum við að horfast í augu við vandann út frá mun víðara samhengi. Horfast í augu við það að kynbundinn launamunur er mjög eðlilegt afsprengi þess kynjakerfis sem við erum alin upp við. Kynjakerfi sem sendir okkur strax frá unga aldri mjög skýr skilaboð þess efnis, að það sem er kvenlegt er minna virði en það sem er karlmannlegt sem aftur skilar sér í því að konur og þar með hefðbundar kvennastéttir fá lægri laun en karlar.

Þannig að það er alveg sama hversu vel við tryggjum jafnréttið samkvæmt lögum. Við munum ekki brúa þetta launabil fyrr en við erum tilbúin til þess að tækla kynjakerfið í heild sinni og hrófla í leiðinni við rótgrónum hugmyndum um kynin og kynhlutverk og ná þannig fram nauðsynlegum viðhorfsbreytingum sem eru forsenda þess að hægt sé að mjaka hlutunum í rétta átt.

Og þá verð ég að koma með eina játningu. Það getur verið mjög þreytandi að halda á lofti merkjum jafnréttisbaráttunnar. Það er þreytandi vegna þess að í kringum okkur eru alls kyns einstaklingar sem fara að dæsa og ranghvolfa í sér augunum um leið og jafnréttismál ber á góma. Einstaklingar sem draga í efa fyrirbæri eins og staðalmyndir kynjanna, kynjakerfið, klámvæðingu og kynbundið ofbeldi. Einstaklingar sem afgreiða jafnréttisbaráttuna sem óþarfa væl í konum, sem einhvers konar forréttindabaráttu eða jafnvel sem fórnarlambsvæðingu kvenna. Einstaklingar sem fordæma femínisma og allt það sem sú mannréttindabarátta stendur fyrir.  Ég stend mig því oft að því að þurfa jafnvel að herða upp hugann áður en ég blanda mér í umræðu um jafnréttismál og velta fyrir mér hvort ég raunverulega nenni að taka slaginn. Því eins sorglegt og það nú er þá getur þessi umræða verið bölvaður slagur - umræða um jafn sjálfsögð og eðlileg réttindi og þau að kynin séu metin jafnt að verðleikum.

En hér stend ég frammi fyrir kynslóð sem svo sannarlega hefur sýnt það að hún þorir, hún getur og hún vill taka slaginn. Kynslóð sem með aðstoð internetsins og hinna ýmsu samfélagsmiðla hefur verið dugleg við að vekja athygli á margvíslegu misrétti s.s. kynbundnu ofbeldi og launamun svo dæmi séu nefnd. Kynslóð sem hefur staðið fyrir baráttuaðgerðum á borð við druslugönguna og Free the nipple þar sem fjölmargar framhaldsskólastúlkur ákváðu að leggja sitt af mörkum til þess að gengisfella fyrirbæri eins og klámvæðingu og hrelliklám. Fyrirbæri sem eru ein helsta afturför sem nútíma femínismi stendur frammi fyrir þar sem þau stuðla með mjög öflugum hætti að kynferðislegri undirskipun kvenna. Klámvæðingin gengur út á það að konur eru skipaðar í einhvers konar þjónustuhlutverk þar sem þeim er fyrst og fremst gert að gleðja karlmenn bæði sjónrænt og líkamlega og hrelliklám er mjög skýr birtingarmynd þess að margir karlar telja sig vera í rétti til þess að „neyta‟ kvenlíkamans hvar og hvenær sem þeim sýnist, algjörlega óháð samþykki.

En ykkar kynslóð hefur svo sannarlega sýnt það í verki við hin ýmsu tilefni, að þið eruð óhrædd við að bjóða kynjamisréttinu birginn og þessi samkoma hér í dag er einmitt mjög gott dæmi um það. Ég er því alveg óendanlega þakklát fyrir þetta frumkvæði ykkar og ég fer héðan bjartsýnni en oft áður um að mögulega muni ég, eða a.m.k. dætur mínar, lifa þann dag þegar fullu jafnrétti kynjanna verður náð. Áfram stelpur!