Fara í efni

Þurfum að horfa í auknum mæli til sjálfbærni

Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir.
Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir.

Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir lauk stúdentsprófi af listnámsbraut VMA – textíllínu vorið 2014. Hún fór í framhaldinu til London í fatahönnun og stefnan er að ljúka BA-námi frá Central Saint Martins vorið 2021. Framhaldið er óráðið á þessari stundu en ekki er ósennilegt að áfram verði haldið í meistaranám. Guðbjörg Þóra hefur verið hér á landi síðan í sumar og verður í það minnsta með annan fótinn á Íslandi fram á næsta ár. Í síðustu viku hélt hún fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri og sagði frá því sem hún hefur verið að fást við í námi sínu í London.

„Ég lauk stúdentsprófi frá VMA vorið 2014 og fór til London um haustið. Ég hafði aldrei haft áhuga á London en eftir að ég fór með fjölskyldu minni árið 2012 í frí til London ákvað ég að þar vildi ég stefna á að búa. Ég hafði skoðað nokkra skóla en ég mig langaði mest að fara í þann skóla sem ég síðan komst inn í, Central Saint Martins, sem er hluti af University of Arts London. Ég var í eitt ár – þrjár annir – í „portfolio“ eða fornámi fyrir BA-nám og það gaf mér mjög mikið og var góður undirbúningur. Ég hóf BA-námið síðan árið 2016 og hef nú lokið þremur árum af fjórum. Núna er ég í smá pásu frá náminu og hef verið hér heima síðan í sumar. Stefnan er sú að fara síðan aftur í skólann á síðasta námsárið eftir tæpt ár og ljúka náminu vorið 2021,“ segir Guðbjörg Þóra.

Í eitt af þeim þremur árum sem Guðbjörg hefur þegar lokið í námi sínu hefur hún verið í starfsnámi. Fyrst var hún hjá Versace í Mílanó á Ítalíu, síðan lá leiðin til New York þar sem hún starfaði hjá Marc Jacobs og loks var Guðbjörg í starfsnámi hjá Chanel í París. Það er því óhætt að segja að á þessu ári í starfsnáminu hafi hún fengið heldur betur innsýn í tískuheiminn, bæði austan og vestan Atlantsála. Guðbjörg segir hreint ekki haft lagt upp með að fara í starfsnám hjá þessum þekktu tískurisum, eitt hafi hins vegar leitt af öðru og þegar upp var staðið hafi hún verið í starfsnámi í öllum þessum þremur háborgum tískunnar í heiminum.

Hér má sjá lítið dæmi um hönnun Guðbjargar.

Eftir tæpt ár ætlar Guðbjörg sem sagt að mæta aftur til leiks í Central Saint Martins og ljúka lokaárinu til BA-prófs, þar sem verður fyrst og fremst unnið að því sem Guðbjörg kallar „lokalínu“ (final collection).

„Í vetur ætla ég að einbeita mér að eigin rannsóknarvinnu og vinna úr þeim ótrúlega mörgu hlutum sem ég kynntist í starfsnáminu. Ég þarf að setjast niður og melta allar þær hugmyndir sem ég hef fengið síðasta árið og finna út hvaða leið ég fer á lokaárinu mínu í BA-náminu,“ segir Guðbjörg.

Hinn heimsþekkti listamaður Grayson Perry er í nánu samstarfi við Central Saint Martins og hluti af námi nemenda  felst í því að þeir hanna fatnað fyrir hann. Hér má sjá kjól sem Guðbjörg hannaði fyrir Perry og síðar kom í ljós, og það kom Guðbjörgu skemmtilega á óvart, að hann klæddist kjólnum fyrir auglýsingaspjald sýningar sem hann hélt í París frá október 2018 til febrúar á þessu ári.

Í sumar hefur Guðbjörg verið að aðstoða móður sína, Ragnheiði Þórsdóttur, sem til fjölda ára hefur kennt vefnað í VMA, að rannsóknarverkefni á Textílsetrinu á Blönduósi. Verkefnið, sem er styrkt af Rannís, gengur í stórum dráttum út á að færa gömul og þekkt munstur úr íslenskum textíl á tölvutækt form og skrá uppskriftir o.fl. Með þessu er verið að byggja upp aðgengilegan gagnagrunn um textíl í tímans rás, mikilvægan hluta af handverki og menningararfleifð þjóðarinnar.

Guðbjörg segir að fjölmargt í náminu í London og starfsnáminu hafi ýtt undir löngun hennar til þess að búa til sín eigin efni, þar sem sjálfbærni væri í öndvegi. Nauðsynlegt sé að horfa í auknum mæli til umhverfismála, því með fataframleiðslu þar sem ekki sé horft til sjálfbærni sé stöðugt gengið á auðlindir jarðar. Þessu þurfi að snúa við. „Ég hef mikinn áhuga á þessu og ég finn að það sama á við um mörg af mínum skólaystkinum, enda er aukin áhersla á umhverfismál og sjálfbærni í náminu. Mér finnst augljóst að til framtíðar litið getum við ekki haldið áfram á þessari braut,“ segir Guðbjörg.

En hvað sér Guðbjörg fyrir sér að hún muni fást við eftir fimm til tíu ár? „Það fer allt eftir Brexit,“ segir hún og hlær. „Það getur allt eins verið að ég endi á Íslandi en ég á síður von á því. Allt fer það eftir því hvernig málin æxlast eftir að ég lýk náminu,“ segir Guðbjörg Þóra Stefánsdóttir.