Fara í efni

Þrjú verkefni VMA-nema á Vörumessu 2017

Ferðafiskur kynntur fyrir Elizu Red forsetafrú.
Ferðafiskur kynntur fyrir Elizu Red forsetafrú.

Þrjú verkefni nemenda í áfanga í frumkvöðlafræði á viðskipta- og hagfræðibraut VMA voru kynnt á svokallaðri Vörumessu ungra frumkvöðla sem fram fór í Smáralind í Kópavogi um liðna helgi. Í heildina voru kynnt 63 örfyrirtæki um 300 framhaldsskólanema í Vörumessunni. Kennarar frumkvöðlanemanna eru Íris Ragnarsdóttir og Katrín Harðardóttir. Hér eru myndir sem Íris Ragnarsdóttir tók á Vörumessunni í Smáralind.

Ferðafiskur er heiti á einu af þessum þremur verkefnum og vakti það óskipta athygli. Morgunblaðið fjallið um hugmyndina 31. mars sl. Hér er mynd af bás Ferðafisks í Smáralind og hér er heimasíða verkefnisins. Eins og sjá má gengur verkefnið út á að selja frystan fisk í gegnum netið og síðan er varan afhent heim við dyr viðkomandi kaupenda. Hér má sjá þá nemendur sem að fyrirtækinu standa. Forsvarsmenn Ferðafisks segja að upphaflega hafi hugmyndin verið að selja og heimsenda harðfisk en síðan hafi hugmyndin þróast og niðurstaðan hafi verið sú að bjóða upp á frosinn fisk í blokkum. Í framhaldinu hafi Ferðafiskur farið í samstarf við Samherja og þorskpakkningar - 2,2 kg að þyngd - séu í boði á Akureyri. Áður en farið var af stað með þróun hugmyndarinnar segja nemendurnir að unnin hafi verið markaðsrannsókn í gegnum facebook og niðurstaða svörunar úr þeirri rannsókn hafi verið sú að bjóða upp á þorsk. Nú þegar er búið að selja um 60 pakkningar - samtals um 120 kg af beinlausum þorskflökum. En hvað með framhaldið? Eins og með flest slík námsverkefni lifa þau á meðan á náminu stendur en hins vegar segja forsvarsmenn Ferðafisks að þeir hafi trú á hugmyndinni og góðar líkur séu á því að með því að þróa hana og útvíkka yrði það lífvænlegt.

Polar Beard & Co. er heiti á öðru verkefni VMA-nema í frumkvöðlafræði sem markaðssetur og selur skegggreiður og skeggolíu. Skegggreiðunni er ætlað að móta fallegar og jafnar skegglínur. Markmiðið með skeggolíunni er að mýkja skegg og örva vöxt og koma í veg fyrir þurra húð undir skeggi. Hér er fb-síða verkefnisins. Slíkar skegggreiður hafa ekki verið á boðstólum hér á landi, samkvæmt athugun forráðamanna fyrirtækisins, og heldur ekki skeggolían. Hana þróuðu hugmyndasmiðirnir í samvinnu við Purity Herbs á Akureyri. Á Vörumessunni í Smáralind runnu rakgreiðurnar út eins og heitar lummur. Almennt segja forráðamenn Polar Beard & Co. að þessi frumkvöðlaáfangi hafi verið þeim gríðarlega lærdómsríkur og þroskandi, gaman sé að takast á við svo krefjandi og jafnframt raunhæft verkefni. Hér má sjá hluta af kynningarbæklingi fyrirtækisins og hér skeggræða forráðamenn fyrirtækisins.

Þriðja frumkvöðlaverkefnið sem nemendur í áfanganum unnu heitir Chia-mál og gengur út á framleiðslu á chia-graut - sem að sjálfsögðu byggir fyrst og fremst á chia-fræjum, sem eru próteinrík og sömuleiðis rík af omega-3 fitusýru. Innihaldið í Chia-máli er hrært út í t.d. súrmjólk, mjólk eða jafnvel vatn - og þannig leysist þurrefnið upp. Í boði eru mismunandi bragðefni. Söluvaran var búin til í aðstöðu á matvælabraut VMA og þurftu forráðamenn fyrirtækisins að sjálfsögðu að afla allra leyfa sem til þarf til matvælaframleiðslu - þar með talið frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra. Hér er facbook-síða Chia-máls.