Fara í efni

Þriðji hópurinn í þriðja bekk í matreiðslu

Lokahönd lögð á aðalréttinn - gómsæta ýsu.
Lokahönd lögð á aðalréttinn - gómsæta ýsu.

Í síðustu viku hófu tíu nemendur nám í 3. bekk matreiðslu, sem er lokaáfanginn í náminu áður en þeir geta þreytt sveinspróf. Stefnan er á sveinspróf vorið 2023. Þetta er í þriðja skipti sem matreiðslumenn eru fullmenntaðir á matvælabraut VMA, 3. bekkurinn var fyrst kenndur á haustönn 2018, í annað skipti á vorönn 2020 og nú er í þriðja skipti boðið upp á þetta nám. Námstíminn er óvenjulegur eða frá miðri haustönn og fram á miðja vorönn 2023. Í samráði við veitingageirann var ákveðið að reyna þetta fyrirkomulag því allir nemendur starfa á veitingastöðum og því mikið að gera þar yfir aðal ferðamannatímann, sem má segja að sé út september. Nú er aðeins farið að hægja á og því auðveldara en ella fyrir nemendur að stunda nám sitt samhliða vinnu.

Theodór Sölvi Haraldsson, matreiðslumeistari, er aðalkennari nemendanna tíu í verklega hluta námsins. Hann hefur áður kennt matreiðslunemum í VMA, bæði í öðrum og þriðja bekk.

Þegar fylgst var með fyrstu verklegu æfingu nemendanna í síðustu viku voru þeir að elda ýsu með sínu lagi. Útfærslan var sem sagt að hætti hvers og eins og voru réttirnir eins ólíkir og nemarnir eru margir. Nemendur höfðu líka frjálst val um eftirrétti og útfærslu þeirra.