Fara í efni

Þriðji bekkur í matreiðslu í fyrsta skipti í VMA

Nám í 3. bekk í matreiðslu er komið í fullan gang.
Nám í 3. bekk í matreiðslu er komið í fullan gang.

Núna á haustönn gefst matreiðslunemum í fyrsta skipti kostur á að ljúka námi sínu til sveinsprófs í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Jafnframt er þetta fyrsti nemendahópurinn sem lýkur námi sínu utan höfuðborgarsvæðisins.

Merkum áfanga í menntun matreiðslunema var náð á haustönn árið 2016 og aftur á vorönn 2018 þegar boðið var upp á 2. bekk matreiðslunámsins – að loknu grunnnámi – í VMA. Núna á haustönn er síðan kenndur 3. bekkur námsins sem lýkur með sveinsprófi. Marína Sigurgeirsdóttir brautarstjóri matvælabrautar VMA segir að þessu hafi verið unnið í langan tíma og því sé sérlega ánægjulegt að sjá þetta loksins verða að veruleika.

Í 3. bekk eru núna tíu nemendur. Allir hafa þeir lokið 2. bekk námsins, bæði í VMA og í MK í Kópavogi. Annað skilyrði til inngöngu í 3. bekkinn er að nemendur hafi lokið áskildum samningstíma á veitingastað.

Sæbjörg Rut Guðmundsdóttir annast verklega kennslu nemenda í 3. bekk en Ari Hallgrímsson sér um bóklega hlutann. Bæði eru þau matreiðslumeistarar og kennarar.

Sæbjörg Rut lærði á sínum tíma á Humarhúsinu í Reykjavík og lauk því árið 2008. Hún tók síðan meistaraskólann í fjarnámi í VMA veturinn 2012-2013. Síðastliðið vor lauk Sæbjörg námi í Háskóla Íslands til kennsluréttinda.

„Eftir að hafa leiðbeint matreiðslunemum á samningstíma sínum á veitingastað komst ég að því að kennslan átti vel við mig og þess vegna ákvað ég að fara í nám til kennararéttinda. Það er ótrúlega gaman að fá að takast á við það verkefni að kenna þessum flottu nemendum lokaáfangann í námi þeirra til sveinsprófs. Þetta er mikið og krefjandi nám þar sem öguð og vönduð vinnubrögð eru í hávegum höfð og einnig er lögð mikil áhersla á að nemendur séu skapandi og sjálfstæðir í vinnubrögðum,“ segir Sæbjörg Rut.