Fara í efni

Þágufallssýki - smásaga Mars Baldurs

Mars fjallar á húmorískan hátt um þágufallssýkina.
Mars fjallar á húmorískan hátt um þágufallssýkina.

,,Okkur þótti þetta mjög skemmtilegur texti, um einhvers konar angist barns yfir ógnvænlegri, nýrri sjúkdómsgreiningu – og svolítið skemmtilegt háð gagnvart þessari tilhneigingu okkar að sjúkdómsvæða frávik í málfari og þá ekki síst einmitt þessa blessuðu þágufallshneigð, sem heitir svo nú orðið. Skemmtileg persónusköpun þarna í gangi og skemmtileg innsýn í hugsun barns um þessa hluti og þá sem hrærast þarna í kring.“

Þannig komst Finnur Friðriksson, formaður dómnefndar ritlistasamkeppni Ungskálda 2022, að orði þegar hann greindi frá 1. verðlauna smásögu Mars Baldurs í Amtsbókasafninu í gær:

Þágufallssýki

Kennarinn kallar mig inn í litla viðtalsherbergið. Það er þröngt og kennarinn passar varla inn í það. Í einum enda þess er lítill leðursófi en við setjumst sitthvoru megin við borðið í hinum enda þess. Á því er talva, snúrusími og kusk úr strokleðri. Fætur mínir ná ekki niður á gólf þegar ég sest á stólinn og ég sveifla þeim, óþolinmóð að komast aftur í smíði og halda áfram að saga kubbinn minn. Ég er ennþá með plástur á þumlinum eftir að hafa næstum sagað hann af í síðustu viku.
Kennarinn sest niður á móti mér og brosir lítillega. Hann er með þykkar augabrúnir og nauðasköllótt höfuð. Hann nýtir hvert einasta tækifæri til þess að tala um það þegar hann var barn og hann á víst tvíburabróður. Við krakkarnir erum með kenningu um að það sé Gísli í Landanum því hann er líka sköllóttur.
Kennarinn tekur upp blaðabunka úr töskunni sinni. Við eigum að fara yfir einkunnirnar sem ég fékk á málfræðiprófi frá Menntaprófastofnun eða eitthvað þannig.
„Jæja, María mín, þér gekk bara ágætlega.“ Kennarinn byrjar að blaða í bunkanum.
Auðvitað gekk mér vel. Á síðasta ári hef ég gjörsamlega sigrast á íslenskunni. Ég er undrabarn skólans. Kennararnir stara á mig stóreygðir þegar þeir sjá að barnið sem þurfti að fara í lesblindupróf í fjórða bekk er að lesa Eragon í fimmta.
Kennarinn fer með mér vandlega yfir prófið. Hann bendir mér á það sem er rétt og rangt og ég kinka bara kolli og sveifla fótunum af enn meiri krafti. Mér er sama um það sem er rangt því einkunnin mín er góð. Ég er að verða það sem mamma kallar fullkomnunarsinni.
„Hérna skrifar þú mér langar og mér kvíðir,“ segir kennarinn og bendir á nokkrar línur. ,,Það rétta væri að segja mig langar og ég kvíði.“ Kennarinn lítur á mig og glottir lítillega. „Þú ert með þágufallssýki, María mín.“
Þágufallssýki? Nei, þetta gat ekki verið. Guð minn góður. Þágufallssýki. Ég hafði svo sem aldrei heyrt orðið fyrr en það hljómaði virkilega alvarlega. Menntaprófastofnun er búin að greina mig með þágufallssýki. Ég er komin með greiningu.
„Reyndar má finna nokkur dæmi um þágufallssýki í Grágás,“ segir kennarinn íhugull.
Grágás, hver er þessi Grágás? Er það spítali eða eitthvað þannig? Eru allir þágufallssjúklingar sendir á Grágás? Mér langar ekki til þess að fara.
Þágufallssýki, þetta er hræðilegt. Ég er sjúk í þágufall en sjúklingurinn sem ég er veit ekki einu sinni hvort þágufall sé um eða frá. Einkunnirnar mínar munu hríðfalla. Ég mun fá fjóra í hverju einasta fagi af því ég er með þágufallssýki.
Kannski mun ég þurfa að fá gleraugu en ég er nú þegar með gleraugu. Nei, þetta hljómar meira eins og þetta komi munninum við. Kannski mun ég byrja að slefa og tungan í mér lamast. Ég verð gjörsamlega óskiljanleg. Kannski eru til lyf við þessu. Ég yrði bryðjandi töflur í hverjum einasta íslenskutíma og ef ég gleymdi því myndi kennarinn hóta að senda mig á Grágás.
Kennarinn teygir höndina eftir einhverju og ég er viss um að það sé snúrusíminn. Hann ætlar líklega að hringja í skólastjórann eða foreldra mína og færa þeim fréttirnar. En hann teygir sig bara í næsta blað og heldur áfram að fara yfir prófið.
Hverjum er ekki sama þó ég beygði ekki nafnið Egill rétt? Ég er með þágufallssýki. Ég er komin með greiningu. Ég mun fá vottorð sem ég mun þurfa að senda skólastjórunum í öllum þeim háskólum sem ég mun sækja um. Ég verð aldrei dýralæknir. Hver vill dýralækni sem er með þágufallssýki?
Kennarinn trommar á borðið með fingrunum. „Jæja, María. Þá erum við búin að fara yfir prófið. Ertu ekki bara sátt með einkunnina?“
Ég lít á hann, hika, langar til þess að spyrja hvað Grágás er. Síðan kinka ég kolli.
„Gott.“ Hann virðist koma auga á eitthvað. „Hvað kom fyrir þumalinn þinn?“
Ég lyfti fingrinum svo að hann geti séð stórslysið betur. „Ég var að saga í smíði.“
En þetta er líklega ekkert miðað við þágufallssýkina. Kannski er hann að forðast að tala um greininguna mína. Hann er of sorgmæddur.
„Ertu ekki að fara í smíði núna?“
„Jú.“
Kennarinn stendur upp. „Ertu með einhverjar spurningar, María mín?“
Mér langar til þess að spyrja hversu alvarleg þágufallssýkin mín er. Ég hristi höfuðið.
„Jæja, gangi þér þá vel í smíði og passaðu fingurna þína.“
Kennarinn lokar dyrunum á eftir mér. Þágufallssýki. Ég verð bara að læra að lifa með því. Ég dreg andann inn, lít á plásturinn minn, ríf hann af og valhoppa síðan yfir í smíðastofuna.