Fara í efni

Stórt og krefjandi verkefni

Bernharð og Ragnheiður kona hans búa í Reykjavík..
Bernharð og Ragnheiður kona hans búa í Reykjavík..

Á þessu ári verða fjórir áratugir liðnir síðan byggingarnefnd Verkmenntaskólans á Akureyri, sem Haukur Árnason veitti formennsku, fékk umboð til að teikna, hanna og reisa hús VMA á Eyrarlandsholti. Fyrstu skóflustunguna tók þáverandi menntamálaráðherra, Ingvar Gíslason, á afmælisdegi Akureyrar, 29. ágúst 1981. Fyrsta skólanefnd skólans var kjörin í janúar 1983 og staða skólameistara auglýst laus til umsóknar í mars sama ár. Sjö sóttu um: Aðalgeir Pálsson, skólastjóri Iðnskólans á Akureyri, Benedikt Sigurðarson, kennari við Stórutjarnarskóla, Bernharð Haraldsson, kennari við Gagnfræðaskóla Akureyrar, Margrét Kristinsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans á Akureyri, Svavar G. Gunnarsson, kennari við Iðnskólann á Akureyri, Sigurlín Sveinbjarnardóttir, kennari, og Tómas Ingi Olrich, konrektor Menntaskólans á Akureyri. Rætt var við þrjá umsækjendur; Aðalgeir, Bernharð og Tómas Inga. Skólanefnd samþykkti samhljóða á fundi sínum 25. apríl 1983 að ráða Bernharð frá 1. júní 1983. Hann gegndi stöðu skólameistara til ársins 1999.

Því verður ekki á móti mælt að það var mikið og krefjandi verkefni sem skólameistari hins nýja skóla tók að sér og oft gaf á bátinn. Bernharð rifjar hér upp aðdraganda að því að hann sótti um stöðu skólameistara á sínum tíma og fyrstu skref skólans.

Ætlaði að verða þýskukennari
 „Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1959 og var að því loknu í eitt ár í Freiburg im Breisgau í Þýskalandi að læra þýsku. Ég ætlaði sem sagt að verða þýskukennari en það fór á annan veg. Því næst kenndi ég í tvö ár við Gagnfræðaskóla Akureyrar en fór þá í Háskóla Íslands og lauk árið 1966 BA-prófi í landafræði, sögu og uppeldis- og kennslufræði. Að háskólanámi loknu kenndi ég í einn vetur í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar – Gaggó Vest en árið 1967 lá leið okkar Ragnheiðar norður og ég fór aftur að kenna við Gagnfræðaskólann og var þar til ársins 1983. Eftir að Ingólfur Ármannsson hætti sem yfirkennari voru framhaldsdeildir Gagnfræðaskólans orðnar svo stórar að Sverrir Pálsson skólastjóri fékk leyfi til þess að ráða tvo yfirkennara við skólann; Magnús Aðalbjörnsson var ráðinn yfirkennari grunnskóladeilda skólans en ég var ráðinn yfirkennari framhaldsdeilda skólans. Því starfi gegndi ég veturinn 1981-1982 en síðan var Sverrir í orlofi veturinn 1982-1983 og óskaði eftir því við skólanefnd að ég leysti hann af,“ rifjar Bernharð upp.

Framhaldsdeildir Gagnfræðaskólans
Bernharð segir að fyrst hafi framhaldsdeildir Gagnfræðaskólans, sem skiptust í þrjú svið; viðskiptasvið, heilbrigðissvið (sjúkraliðanám) og uppeldissvið, verið tveggja ára nám en það hafi síðan lengst í þrjú ár. „Við vildum ganga alla leið og bjóða upp á fjögurra ára nám sem lyki með stúdentsprófi. Það fékkst hins vegar ekki og niðurstaðan varð sú að í nokkur ár tóku nemendur lokaárið til stúdentsprófs í MA, að loknu þriggja ára námi í framhaldsdeild Gagnfræðaskólans,“ segir Bernharð og bætir við að framhaldsdeildirnar hafi komið til sögunnar vegna þess að mikil þörf hafi verið á því að opna fleiri menntaleiðir og mæta áhuga nemenda á frekara námi. Nemendur hafi viljað sýna fram á að námið væri gott og þeir hafi almennt sýnt metnað til þess að standa sig vel.

Þegar kom að því að ráða skólameistara Verkmenntaskólans velti Bernharð vöngum yfir því hvort hann ætti að sækja um. „Morguninn sem umsóknarfresturinn rann út hafði ég samband við Sverri Pálsson, sem var erlendis, því ég vildi heyra hvort hann ætlaði að sækja um stöðuna. Ef svo væri vildi ég ekki sækja um. Sverrir sagði mér að hann hefði ekki hug á því að sækja um. Ég ákvað þá að senda inn umsókn, enda taldi ég það rökrétt í því ljósi að það nám sem hafði verið í boði í framhaldsdeildum Gagnfræðaskólans yrði ein af þremur meginstoðum hins nýja skóla, hinar væru Húsmæðraskólinn og Iðnskólinn á Akureyri. Mér fannst því, og ég hygg að Sverrir hafi verið mér sammála um það, að eðlilegt væri að einhver úr kennaraliði Gagnfræðaskólans sækti um skólameistarastöðu hins nýja skóla.
Ég viðurkenni fúslega að fyrirfram gerði ég mér ekki ljósa grein fyrir hversu stórt það verkefni var að stýra uppbyggingu nýs skóla. Á kerfið kunni ég lítið og þurfti að eyða miklum tíma í að setja mig inn í þann hluta starfsins. Og mér gafst ekki mikið ráðrúm til þess að marka stefnu um hvernig ég sæi hinn nýja skóla, enda var ég enn í starfi skólastjóra Gagnfræðaskólans þegar ég var ráðinn skólameistari Verkmenntaskólans og að því verkefni vildi ég einbeita mér til vors 1983. En fyrst og fremst var það takmark mitt að okkur tækist að búa til nýjan og góðan skóla.
Nemendur komu úr þremur skólum á Akureyri - Húsmæðraskólanum, Iðnskólanum og framhaldsdeildum Gagnfræðaskólans – og þar að auki var fjórði hópurinn nemendur úr öðrum byggðarlögum sem höfðu ekki haft möguleika á frekara námi í sinni heimabyggð en sáu nýja möguleika opnast í þessum nýja skóla á Akureyri. Verkefnið var því að bræða saman fjóra hópa nemenda úr ólíkum áttum í eina heild.
Annað og ekki síður erfitt viðfangsefni þegar skólinn hófst var húsnæðisleysið. Nemendur voru í tímum út um allan bæ, mest hafði skólinn afnot af sjö kennslustofum í Gagnfræðaskólanum. Við vorum líka í Íþróttahöllinni, bæði í suðurendanum og á efri hæðinni að norðan, áfram var kennt í húsnæði Iðnskólans við Þingvallastræti, þar sem nú er Icelandair hótel, og sömuleiðis í gamla Húsmæðraskólanum. Einnig fór verkleg kennsla vélstjórnarnema fram niðri á Oddeyri eins og verið hafði um langt skeið. Eðlilega var snúið að ná skólanum saman sem einni heild á meðan kennt var út um allan bæ og fyrstu árin var mjög erfitt að koma stundatöflum heim og saman vegna þess að nemendur og kennarar þurftu að fara á milli húsa. Því voru stundatöflur margra nemenda og kennara ansi götóttar og skóladagurinn teygðist til klukkan sex á daginn. Þetta fyrirkomulag í skólastarfinu fyrstu árin var rekstrarlega óhagstætt og áætlanir menntamálaráðuneytisins og raunveruleikinn fóru ekki alltaf saman. Upphaflega hugmyndin var að byggja framhaldsskóla fyrir 650 nemendur, sem var sú stærð sem að mati Hagstofunnar og lærðra manna í tölfræði myndi mæta eftirspurninni. Þegar ég hins vegar setti skólann í fyrsta skipti í Akureyrarkirkju 1. september 1984 voru 784 nemendur innritaðir, um 130 fleiri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Nemendum fjölgaði hratt og innan fárra ára komust þeir á annað þúsundið.“

Bernharð segir að það hafi vissulega verið erfitt að halda uppi eðlilegu skólastarfi þegar skólinn var dreifður um bæinn en það hafi þó gengið vegna þess að nemendur hafi verið fullir áhuga og lagt sig fram. „Án þess að ég geti fullyrt neitt um það, þá er tilfinning mín sú að nemendur, kennarar og annað starfsfólk hafi verið í ákveðinni, dulinni samkeppni við Menntaskólann, þeir vildu sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að hinn nýi skóli væri verðug menntastofnun,“ segir Bernharð.

Fyrsta veturinn, áður en skólinn hóf starfsemi, hafði Bernharð aðsetur í Kaupangi eins og Magnús Garðarsson, tæknifræðingur, sem hafði eftirlit með byggingarframkvæmdum við Verkmenntaskólann, en fyrstu tvö skólaárin hafði Bernharð skrifstofu í húsnæði Iðnskólans. Árið 1986 flutti hann sig síðan upp á Eyrarlandsholtið. Þá var komin aðstaða fyrir stjórnendur og kennara í A-álmunni.

Friðrik Þorvaldsson fyrsti kennari VMA
„Friðrik Þorvaldsson, þýskukennari minn í MA, var fyrsti kennarinn sem ég réð til starfa við Verkmenntaskólann. Ég hitti hann á pósthúsinu við Hafnarstræti í janúar 1984 og við tókum spjall saman. Friðrik spurði mig hvort yrði kennd þýska í hinum nýja skóla. Ég játaði því og við handsöluðum á staðnum að hann yrði þýskukennari við skólann. Síðar, þegar Friðrik var skipaður kennari við VMA, gerði ráðuneytið athugasemd við að svo fullorðinn maður væri skipaður kennari, en Friðrik var þá 61 árs gamall.
Almennt gekk vel að ráða kennara að skólanum og um sumar stöður fengum við margar umsóknir. Margir kennarar sem höfðu kennt við bæði Iðnskólann og framhaldsdeildir Gagnfræðaskólans sóttu um.“

Sem fyrr segir var Verkmenntakólinn settur í fyrsta skipti 1. september 1984 í Akureyrarkirkju og segist Bernharð minnast þess að hann hafi haldið allt of langa skólasetningarræðu. Einnig fluttu ávörp Sigfríður Þorsteinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, og Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, fyrir hönd Ragnhildar Helgadóttur, þáverandi menntamálaráðherra. Séra Þórhallur Höskuldsson, prestur við Akureyrarkirkju, flutti bæn, tónlist við athöfnina fluttu Gyða Halldórsdóttir, orgelleikari, og Gréta Baldursdóttir, fiðluleikari. Við skólasetninguna var fjöldi boðsgesta  auk nemenda og starfsmanna hins nýja skóla. Kirkjubekkirnir voru þétt setnir.

Fyrsta skólaárið voru um tveir þriðju hlutar nemenda frá Akureyri og flestir hinna komu af Norðausturlandi. Kennt var á fimm sviðum; heilbrigðissviði, hússtjórnarsviði, tæknisviði, uppeldissviði og viðskiptasviði. Flestir voru nemendur á tækni- og viðskiptasviði, hvort svið með á þriðja hundrað nemendur.

Í mörg horn var að líta við undirbúning skólahaldsins og þar að auki voru byggingarframkvæmdir í fullum gangi. Þegar B-álman, bóknámsálman, kom til sögunnar var, má heita, drullusvað fyrir utan skólann og því bárust mikil óhreinindi inn á teppaflísarnar í nýju álmunni. Bernharð og Baldvin Bjarnason, aðstoðarskólameistari, skutu á fundi með nemendaráði og niðurstaðan var sú að allir færu úr skónum þegar inn í skólann var komið. Þetta virtu nemendur í hvívetna og fóru ekki eftir það inn á skítugum skónum.

Stoltur af herminum og fjarkennslunni
Þegar Bernharð lítur til baka segist hann öðru fremur vera stoltur af tveimur hlutum á starfstíma sínum við VMA. Annars vegar þegar skólinn keypti vélarrúmshermi, þann fyrsta á Íslandi, sem var heilmikil fjárfesting á þessum tíma, kostaði um tvær og hálfa milljón króna, en var afar mikilvægur fyrir kennslu í vélstjórn og varð til þess, að innan fárra ára var unnt að bjóða upp á fullt nám, sambærilegt við nám í Vélskóla Íslands. Hins vegar segist hann vera montinn af því að hafa greitt götu fjarkennslu við VMA. Hugmyndin að fjarkennslunni hafi komið frá Adam Óskarssyni og Hauki Ágústssyni og hann hafi ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að tala um þegar þeir komu á hans fund með þessa hugmynd. „Ég sagði við þá: „Ég hef ekki hugmynd um hvað þið eruð að tala um en ég skal styðja ykkur.“ Og þar með fór fjarkennslan af stað og við byrjuðum með fjórtán nemendur, en nokkrum árum seinna náðu þeir rúmlega sjö hundruðum! Eftir að við hófum fjarkennsluna var ég ítrekað skammaður í menntamálaráðuneytinu fyrir þessa fráleitu vitleysu. En málið var bara að það var enginn viðbótarkostnaður, nemendur borguðu námskostnaðinn, tölvurnar áttum við og húsnæðið sömuleiðis. Ráðuneytismennirnir höfðu því fátt við að styðjast þegar þeir skömmuðu okkur. Nú er fjarkennsla skólans gæðavottuð, líklega sú eina í landinu. Þetta var því mikið gæfuspor,“ segir Bernharð.

Í dagsins önn
Bernharð segir ekkert launungarmál að það hafi verið stórt og erfitt verkefni að byggja upp nýjan skóla en erfiðustu glímuna hafi hann þó háð við sjálfan sig, að taka ekki feilspor í vinnu sinni sem skólameistari nýs skóla. Hann hafi í starfi sínu horft til Sverris Pálssonar sem fyrirmyndar, sem bæði hafi kennt honum á sínum tíma og verið yfirmaður hans til fjölda ára í Gagnfræðaskólanum.
„Fyrst og fremst var vinna mín fólgin í stjórnun skólans frá degi til dags en ég kenndi jafnframt í nokkur ár hagræna landafræði á viðskiptasviði. Ég minnist þess að ég kenndi í suðurstofu í Íþróttahöllinni og síðar í B-álmunni á Eyrarlandsholti. Þá var ekki búið að innrétta stofurnar og við kenndum í stórum sal þar sem voru hvorki borð né stólar. Nemendur sátu því á gólfinu og hlýddu á boðskap minn. Í hinum enda salarins kenndi Aðalgeir Pálsson rafmagnsfræði og honum lá hátt rómur. Gárungarnir sögðu að ég yrði útlærður rafvirki eftir þennan vetur,“ rifjar Bernharð upp og hlær. „Það var þröngt setið en það var nemendum og kennurum kappsmál að þetta myndi allt ganga.“

Bernharð segir starf skólameistarans hafa verið ákaflega fjölbreytt, verkefnin mörg, sum flókin, önnur ekki. Hann hafi setið marga fundi, kennarafundi, stjórnendafundi, skólastjórnarfundi sem og skólanefndarfundi og byggingarnefndarfundi. Við þetta hafi bæst fundir með stjórnendum annarra framhaldsskóla, bæði á Norðurlandi og í Reykjavík, sem og ráðuneytisfólki. Eitt skólaárið segist hann hafa farið um 20 ferðir til Reykjavíkur! „Þá er komið að mikilvægasta verkefninu, samstarfinu við nemendur. Þar sem þeir voru svona  margir, var alveg útilokað, að ég kynntist þeim öllum og því var gjarnan spurt: „Hverra manna ertu?“ eins og sjá má á Mínervu þessara tíma og augljóst er, að margir nemendur þekku mig alls ekki í sjón. Það gerði mér lífið léttara, að skólinn bjó yfir frábæru og metnaðarfullu starfsfólki, sem átti sinn þátt í að skapa það góða andrúmsloft, sem í skólanum ríkti.“

Aðalgeir Pálsson var aðstoðarskólameistari fyrsta árið en síðan tók Baldvin Jóh. Bjarnason við starfinu og gegndi því til 1988. Þá tók Haukur Jónsson við. Baldvin leysti Bernharð af sem skólameistari 1988-1989 þegar hann var í námsleyfi í Kaupmannahöfn og stundaði framhaldsnám í hagrænni landafræði við Geografisk Institut og Haukur leysti hann einnig síðar af um þriggja mánaða skeið haustið 1990.

Í námsleyfum sínum skrifaði Bernharð tvær kennslubækur í hagrænni landafræði. Síðar skrifaði hann bækurnar Um verkmenntun við Eyjafjörð og Verkmenntaskólann á Akureyri 1984-2004 (2004) og Gagnfræðaskóli Akureyrar. Saga skóla í sextíu og sjö ár (2009) og í nokkur ár kom hann að lokagerð ritunar ábúendatals í Eyjafirði framan Glerár og Varðgjár frá landnámi til 2000, sem Stefán Aðalsteinsson skrifaði. Þetta mikla verk gaf Sögufélag Eyfirðinga út í sex bindum á síðasta ári.

Grúskað í Skriðuhreppi hinum forna á nítjándu öld
Frá 2009 hefur ættfræðigrúsk og gerð ábúendatals í Skriðuhreppi hinum forna á nítjándu öld, verið meginviðfangsefni Bernharðs og er sú vinna á lokametrunum. „Í þessu riti beiti ég í grunninn sömu aðferðum og við ritun ábúendatalsins í Eyjafirði en ég hef kafað dýpra og fjalla ítarlegar um fólk. Ég studdist við bækur Eiðs Guðmundssonar á Þúfnavöllum og fyllti frekar út í. Fór í kirkjubækur og bætti við upplýsingum sem þar er að finna. Einnig eru miklar upplýsingar í vísitasíubókum presta en þeir voru þó misduglegir að færa upplýsingar til bókar. Einnig var gullnáma að komast í upplýsingar um barneignir utan hjónabands. Allar þær upplýsingar eru til skráðar á Þjóðskjalasafni og eru merkilegur fróðleikur. Einnig skoðaði ég flutninga fólks úr Skriðuhreppi til Vesturheims. Kristján Sigfússon á Ytra-Hóli hafði unnið gríðarlegt starf við söfnun upplýsinga og ég sat löngum stundum hjá honum á Akureyri og síðar var ég mikið hjá Oddi F. Helgasyni hjá ORG Ættfræðiþjónustu, enda hafði Kristján miðlað þeim fróðleik sem hann hafði aflað til Odds. Vinnan við þetta ábúendatal er á lokastigi og ég vænti þess að þetta grúsk mitt síðustu árin komi út á bók áður en langt um líður,“ segir Bernharð Haraldsson.