Fara í efni

Starfsfóstri fékk viðurkenningu

Illugi Gunnarsson, Hjalti Jón og Jóhannes.
Illugi Gunnarsson, Hjalti Jón og Jóhannes.

Síðastliðinn fimmtudag hlaut evrópska verkefnið Starfsfóstri eða Workmentor, sem Jóhannes Árnason hefur stýrt fyrir hönd VMA, gæðaviðurkenningu menntaáætlunar Evrópusambandsins Erasmus + í hópi íslenskra verkefna á sviði starfsmenntunar. Áður hafði Workmenntor verið útnefnt sem "success story" af Menntaskrifstofu Evrópusambandins. Verkefnið fjallar um að þróa námskeið fyrir starfsmenn á vinnustöðum sem taka að sér að styðja nema eða nýliða á vinnustað. Auk VMA tóku þátt í verkefninu skólar og stofnanir í Wales, Englandi, Finnlandi, Frakklandi, Hollandi og Noregi. Lokaráðstefna verkefnsins var á haustdögum 2013.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Hjalta Jóni Sveinssyni, skólameistara VMA, og Jóhannesi Árnasyni, verkefnastjóra erlendra samskipta og kennara í VMA, viðurkenninguna, sem er í formi myndverks sem tveir nemendur á öðru ári í teiknideild Myndlistaskólans í Reykjavík, Guðbrandur Magnússon og Guðný Hannesdóttir, gerðu. Þau lýsa verki sínu svo:  „Ætlunin var að láta verkefnið endurspegla þá hugsjón VMA að sameina nemendur og starfsfóstra, byggja þá upp og leggja grunn að bjartari framtíð.“

Níu önnur verkefni sem hafa verið styrkt af menntaáætlun ESB i hlutu einnig viðurkenningu að þessu sinni. Þau eru:

eTwinning

  1. Hvað finnum við undir fótum okkar? Heilsuleikskólinn Krókur, Grindavík 
  2. Lesum heiminn, Leikskólinn Holt, Reykjanesbær  

Erasmus+

  1. Sterkari saman, Lundarskóli, Akureyri  
  2. Að byggja brú milli leik- og grunnskóla, Sveitarfélagið Skagafjörður  
  3. Íslenskir iðnnemar í vinnustaðanámi í Evrópu, Iðan fræðslusetur   
  4. Sumarskóli Rannsóknarseturs um smáríki, Háskóli Íslands  
  5. Erasmus stúdenta- og starfsmannaskipti, Listaháskóli Íslands  
  6. Fegurð hannyrðanna, Þingborg ullarvinnsla  
  7. Art-is, Sólheimar  

Umsögn um Starfsfóstra vegna viðurkenningarinnar er á þessa leið:

Starfsfóstri var samstarfsverkefni fimm landa um þróun handbókar og þjálfun fyrir starfsfóstra í fyrirtækjum sem taka nema í starfsþjálfun. Brennandi áhugi og mikill metnaður einkenndi framkvæmd verkefnisins, því var vel stýrt og verkefnishópurinn sterkur. Afurðir verkefnis – handbók og vinnusmiðjur fyrir starfsfóstra – eru enn í notkun í 4 löndum, hafa hlotið sérstaka viðurkenningu Evrópusambandsins sem gæðaverkefni  og hluti samstarfshópsins vinnur að áframhaldandi þróun afurðanna. Sá ávinningur verkefnisins sem mestu máli skiptir er hins vegar aukinn stuðningur við nemendur sem eru í hættu að hverfa frá námi og aukin þjálfun fyrir starfsfóstra á vinnustað.“

Í einblöðungi sem fylgir viðurkenningunni segir eftirfarandi:

„Sjálfstraust nema á vinnumarkaði var í forgrunni í verkefninu Starfsfóstri sem Verkmenntaskólinn á Akureyri (VMA) stýrði og var nýlega valið sem fyrirmyndarverkefni hjá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Verkefnið gekk út á að þróa leiðbeiningarefni fyrir aðila á vinnumarkaði sem taka á móti nemum frá verkmenntaskólum í starfsnám og er það einn hlekkur í keðju verkefna á vegum VMA sem taka á sambandi skóla, nema og vinnustaða. „Við höldum því fram að ef nema á vinnustað líður vel, ef hann fær upplýsingar og stuðning og finnur sig á staðnum og í starfinu sé líklegra að viðkomandi ljúki vinnustaðanáminu, að það skili árangri og að viðkomandi vilji vera áfram í starfsgreininni,“ segir Jóhannes Árnason verkefnastjóri Starfsfóstra. Jóhannes segir starfsfóstra vera eins konar stuðningsaðila á vinnustöðum, frekar samstarfsmenn en yfirmenn, sem taki á móti nemum sem oft hafa átt undir högg að sækja í námi. Starfsfóstrarnir leiðbeini nemunum og veiti þeim þann stuðning sem þeir þurfa til að ná árangri. Samstarfsskólar VMA voru sex talsins og staðsettir í jafn mörgum Evrópulöndum. Þátttakendurnir völdu og þróuðu efni til að nota á námskeiðum og vinnustofum fyrir tilvonandi starfsfóstra. Slíkir viðburðir voru haldnir í öllum þátttökulöndunum auk þess sem leiðbeiningabæklingur var þýddur á móðurmál heimalanda allra þátttökuríkjanna. Jóhannes útskýrir að á starfsfóstranámskeiðum verkefnisins hafi m.a. verið rætt við þátttakendur um góð samskipti, markmiðasetningu, samkennd og hvernig best sé að gefa fyrirmæli þannig að þau komist til skila. Hann segir vellíðan nemenda helsta áhersluatriði verkefnisins en að þegar upp er staðið gagnist það öllum þátttakendum. „Vinnustaðir sem taka vel á móti nýliðum og taka þátt í að mennta fólk á sínu sviði eru einfaldlega betri vinnustaðir með betra andrúmsloft. Svo við höldum því fram að þetta sé ekki einhvers konar ánauð heldur styrki þetta alla þegar vel tekst til, skólann, vinnustaðinn og nemandann.“ Hægt er að finna allt efni tengt Starfsfóstra þ.á.m. bæklinga, spurningalista fyrir vinnustaði og handbók fyrir leiðbeinendur á www.workmentor.vma.is“

Á þessari mynd, sem var tekin við afhendingu viðurkenningarinnar, eru frá vinstri: Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar, Helen Williamsdóttir Grey, forstöðumaður starfmenntadeildar Iðunnar, Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA, Jóhannes Árnason, verkefnisstjóri erlendra samskipta í VMA, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Margrét Jóhannsdóttir, sérfræðingur á mennta- og menningarsviði Rannís.