Fara í efni

Sprengjuárás í Istanbúl setti strik í reikninginn

Dagný og Jóhannes í VMA á veffundi í ELECO TEAM
Dagný og Jóhannes í VMA á veffundi í ELECO TEAM

Ýmislegt fer öðruvísi en ætlað er. Í þessari viku var ætlunin að halda samráðsfund í ELECO TEAM – Erasmus + Evrópuverkefni sem VMA stýrir – í Istanbúl í Tyrklandi.

Dagný Hulda Valbergsdóttir, sem heldur utan um erlend samskipti í VMA, og Jóhannes Árnason kennari voru á leið til Tyrklands sl. sunnudag þegar þeim bárust fréttir af sprengjuárás í hjarta Istanbúl í Tyrklandi.

Dagný og Jóhannes flugu frá Akureyri síðdegis sl. sunnudag til Kaupmannahafnar og fengu á Kastupflugvelli fregnir af því hvað hefði gerst í Istanbúl fyrr um daginn. Eðlilega var strax uppi mikil óvissa um stöðu mála í Istanbúl, hvort óhætt væri að ferðast til borgarinnar, hvort hömlur væru á samgöngur í borginni o.s.frv. og eftir að fulltrúar þátttökuþjóðanna höfðu borið saman bækur sínar á sunnudagskvöld var ákveðið að hætta við samráðsfundinn í Istanbul og efna þess í stað til veffunda. Þeir hafa síðan verið sl. þriðjudag, í gær og síðasti hluti þeirra verður í dag.

Í stað þess að halda áfram frá Kaupmannahöfn sl. mánudag til Istanbúl fóru Dagný og Jóhannes í flugi á mánudaginn aftur til Íslands, nánar tiltekið til Keflavíkur og óku þaðan til Akureyrar. Þau voru komin aftur heim röskum sólarhring eftir að þau fóru frá Akureyrarflugvelli. Ferð sem sannarlega tók óvænta stefnu.

Jóhannes og Dagný segja að búið hafi verið að setja upp dagskrá fundar í Istanbúl, þátttakendur hafi vitaskuld fyrir löngu verið búnir að kaupa flug frá sínum heimalöndum til Istanbúl, ganga frá hótelgistingu o.fl. og því hafi ekki verið einfalt að taka þá ákvörðun að hætta við fundinn á síðustu stundu. Það hafi hins vegar verið óhjákvæmilegt og um það hafi þátttakendur verið sammála. Þau segja hópinn sem kemur að þessu Evrópuverkefni alveg einstaka samheldinn og vinnusaman og verkefnið og allt í kringum það hafi því gengið sérlega vel.

Hér er umfjöllun um þetta verkefni á heimasíðu VMA þegar þátttakendur heimsóttu VMA í maí sl. Þá var þetta myndband gert. Hér er umfjöllun um heimsókn kennara og nemenda í rafdeild VMA til Kanaríeyja í október sl.

Næst hittast nemendur og kennarar í ELEC0 TEAM í Ungverjalandi í mars 2023. Síðar á vorönninni verður farið til Hollands og verkefninu lýkur í Slóveníu haustið 2023.

Í ELECO TEAM er meginþemað tæknilausnir þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Horft er til framleiðslu og endurnýtingar grænnar orku.