Fara í efni

Spennandi sýning í sal Myndlistarfélagsins

Þrír myndlistarnemar á listnámsbraut VMA, Agnes Ársælsdóttir, Jón Arnar Kristjánsson og Þórður Indriði Björnsson, standa saman að sýningu á verkum sínum í sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu (Kaupvangsstræti 10) um helgina. Sýningin verður opin á morgun, laugardaginn 6. apríl, kl. 14 -21 og á sunnudag, 7. apríl, kl. 13 til 16.

Talan þrír er skemmtileg að því leyti að hún fylgir í kjölfarið á tölunni tveimur og á undan fjórum.  Óhöppin koma í þrennum og eru þau aðeins tilviljun, rétt eins og allt sem hrærist á þessari jörðu sem og tildrög þessarar sýningar. Samkvæmt Pýþagorasi var talan þrír hin fullkomna tala því hún átti sér upphaf, miðju og endi líkt og leikverk, kvikmynd, tónverk og lífvera. Talan þrír leikur stórt hlutverk í þjóðsögum og ævintýrum og magnar hún upp spennu líkt og spennan sem myndast á milli þriggja ólíkra einstaklinga sem komið er fyrir saman í tómu rými.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að þegar þrír myndlistarnemar leggja krafta sína saman kemur eitthvað skemmtilegt og óvænt út úr því. Látið því ekki þessa sýningu framhjá ykkur fara!