Fara í efni

Smíðaði myntmottur fyrir Frost í tilefni af Mottumars

Guðmundur H. Hannesson, framkvæmdastjóri Frosts, og Hörður Óskarsson með myntmotturnar sem hann smíð…
Guðmundur H. Hannesson, framkvæmdastjóri Frosts, og Hörður Óskarsson með myntmotturnar sem hann smíðaði fyrir Frost í tilefni af Mottumars.

Næstkomandi föstudag, 1. mars, hefst Mottumars - hið árlega átak Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga þess um allt land. Með Mottumars eru karlar hvattir til að halda vöku sinni gagnvart krabbameinum og í ár er lögð sérstök áhersla á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum. Jafnframt hefur Mottumars það að markmiði að safna fjármunum til þess að styrkja starf krabbameinsfélaganna í landinu.

Ekki þarf að hafa um það mörg orð að Mottumars vísar til yfirvaraskeggsins, eða mottunnar eins og það er oft kallað, sem karlmenn safna og skarta sérstaklega í mars til þess að vekja athygli á þessu forvarnaátaki og sýna stuðning sinn í verki.

Hörður Óskarsson, kennari og brautarstjóri málmiðnbrautar VMA, hefur frá 2017 átt sér það áhugamál að smíða skartgripi úr gamalli mynt. Þessi frétt birtist um málið í apríl 2017 og árið 2022 var Hörður með sölubás í Hlíðarbæ þar sem hann kynnti og seldi smíðagripi sína.

Í tilefni af Mottumars ákváðu stjórnendur Kælismiðjunnar Frost á Akureyri að gefa öllum starfsmönnum mottu-barmnælur og fólu Herði að smíða hundrað slíkar úr gamalli mynt. Afurðina kallar Hörður myntmottur. Með þessu vildu þeir Frost-menn vekja athygli á Mottumars, þessu árlega átaki Krabbameinsfélags Íslands, og hvetja alla karlmenn til þess að halda vöku sinni.

Guðmundur H. Hannesson, framkvæmdastjóri Frost, segir á heimasíðu fyrirtækisins að það hafi legið beint við að leita til Harðar um að taka þetta smíðaverkefni að sér enda sé hann fyrrum starfsmaður fyrirtækisins. Hjá Frost starfaði Hörður frá 1995 til 2006 þegar hann færði sig um set og hefur síðan verið við kennslu og brautarstjórn á málmiðnbraut VMA.

Frá því Hörður hóf að smíð skartgripi úr mynt hefur hann styrkt Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis veglega með því að láta hluta söluandvirðis smíðagripa sinna renna til félagsins. Á þennan hátt vill Hörður styðja við mikilvægt starf Krabbameinsfélagsins og jafnframt minnast bróður síns heitins, Sigurðar Viðars Óskarssonar, sem lést úr krabbameini árið 2010. Hann var borinn til grafar á fimmtugs afmælisdegi sínum, 25. nóvember 2010.

Myntmottur Harðar eru til sölu hjá Krabbameinsfélagi Íslands og Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Einnig er hægt að panta þær í gegnum fb.síðuna Mynthringir og allskonar.