Fara í efni

Gömul mynt er gulls ígildi

Hörður á Norðlensku handverki og hönnun í Hlíðarbæ
Hörður á Norðlensku handverki og hönnun í Hlíðarbæ

Þetta byrjaði fyrir um fimm árum síðan. Hörður rakst á gamla mynt í bílskúrnum og langaði til þess að prófa að búa sér til hring úr einum peningnum. En þetta var bara byrjunin og fimm árum síðar er þetta orðið eitthvað miklu meira og stærra – en ennþá samt bara tómstundagaman. Hringarnir eru á sínum stað en við hafa bæst hálsmen, slaufur og skart af ýmsum toga – eins og sjá má á fb.síðunni Mynthringar og allskonar sem Hörður hefur sett upp.

Dags daglega sinnir Hörður Óskarsson starfsskyldum sínum sem brautarstjóri og kennari á málmiðnaðarbraut VMA. Mynthringirnir og allt hitt sem hann býr til heima í bílskúr er hans hliðarbúgrein sem hann grípur til þegar tími gefst til – snemma á morgnana, á kvöldin eftir vinnu eða um helgar. Það hefur mikið vatn til sjávar runnið síðan þetta viðtal var tekið við Hörð hér á heimasíðu VMA fyrir fimm árum, 2017. Og sem fyrr lætur hann alltaf 2000 krónur af sölu hverrar myntslaufu sem hann býr til renna til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis – í minningu bróður síns, Sigurðar Viðars Óskarssonar, sem lést árið 2010 úr krabbameini, 49 ára gamall. Frá 2017 hafa þau hjónin Hörður og Erna Rós Ingvarsdóttir styrkt Krabbameinsfélagið um röskar 1,3 milljónir króna, síðast afhentu þau félaginu 280.000 krónur á fæðingardegi Sigurðar heitins, þann 25. nóvember sl.

Um liðna helgi kynnti Hörður mynthringana sína og annað sem hann býr til á sýningunni Norðlensk hönnun og handverk í Hlíðarbæ, norðan Akureyrar. Þar var margt um manninn og fjölbreytt handverk í boði í aðdraganda jólanna. Þessar myndir voru teknar þar, en svo skemmtilega vildi til að tvö af systkinum Harðar, Adam, sem kenndi um árabil við VMA, og Bryndís voru líka með kynningar- og sölubása á sýniningunni. Bryndís kynnti  Úr geymslu í gersemi og Adam rennismíðina sína Tré og föndur.