Fara í efni

Lord of the Rings í málmiðnaðardeildinni!

Hörður Óskarsson, brautarstjóri og hringasmiður.
Hörður Óskarsson, brautarstjóri og hringasmiður.

Gömul mynt - krónur og aurar - er til margra hluta nytsamleg. Það sannaðist rækilega þegar Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðnaðargreina í VMA, tók til í bílskúrnum sínum fyrir nokkrum vikum og rakst þá á nokkra dalla af gömlum íslenskum krónum og aurum, sem hann hafði sett upp í hillu þegar þær voru teknar úr umferð forðum daga. 

Hörð rámaði í að hafa einhvern tímann séð að unnt væri að nýta slíka gamla peninga í hringa – auðvitað með töluverðum tilfæringum. Hann fór því að afla sér upplýsinga og fann síðan eitt og annað sem kom að gagni á netinu, þar á meðal klippur á Youtube. Og með þessar upplýsingar í farteskinu settist hann niður í bílskúrnum og fór að þreifa sig áfram í hringasmíði. Árangurinn lét ekki á sér standa og nú er hann búinn að smíða nokkra hringa – meira að segja nýttu tengdaforeldrar hans tækifærið – eftir margra ára sambúð – og settu upp hringana – að sjálfsögðu frá tengdasyninum.

Hörður hefur ýmislegt smíðað í gegnum tíðina og finnst ekki leiðinlegt að skapa eitthvað nýtt og óvenjulegt. Hann segir að vissulega sé þetta töluverð nákvæmnisvinna en með þolinmæðinni hafist þetta. Ekki sé ætlunin að gera þetta að hliðarbúgrein, fyrst og fremst geri hann þetta fyrir ánægjuna og í því skyni hefur hann útbúið sér vinnuaðstöðu í bílskúrnum. Hörður segir að vinir og kunningjar hafi gaukað að sér gömlum peningum – sem séu vel þegnir – og á dögunum, þegar hann var staddur í Danmörku, hafi hann gripið danska mynt og snarlega breytt henni í hring.

Hörður brá sér á Græna hattinn og að sjálfsögðu fékk sá gamalreyndi tónlistarmaður, Björgvin Halldórsson, flotkrónuhring að gjöf frá Herði.

Hér má sjá nokkra af þeim hringum sem Hörður - sem við leyfum okkur að nefna "Lord of the Rings", eins og J.R.R. Tolkien forðum daga - hefur verið að smíða að undanförnu.