Fara í efni

Skuggakosningar í VMA á morgun

Nemendur í VMA ganga  að kjörborðinu á morgun.
Nemendur í VMA ganga að kjörborðinu á morgun.

Á morgun, fimmtudaginn 13. október, fara fram svokallaðar skuggakosningar (Shadow elections) í bróðurparti hérlendra framhaldsskóla, þar á meðal VMA, og eru þær liður í svokallaðri lýðræðisviku frá 10.-13. október. Nemendur greiða atkvæði eins og þeir væru að ganga að kjörborðinu í alþingiskosningunum laugardaginn 29. október nk. og velja á milli þeirra framboða í Norðausturkjördæmi sem hafa birt sína framboðslista.

Skuggakosningarnar eru haldnar að frumkvæði Landssambands æskulýðsfélaga og Sambands íslenskra framhaldsskóla og er ætlað að efla lýðræðisvitund framhaldsskólanema og hvetja þá til þess að nýta atkvæðisrétt sinn í alþingiskosningunum 29. október nk.

Staðreyndin er sú að kosningaþátttaka Íslendinga, eins og í nágrannalöndunum, hefur verið að minnka á síðustu árum. Einkum hefur kosningaþátttaka ungs fólks dvínað mjög á undanförnum árum. Það segir sína sögu að í sveitarstjórnarkosningunum 2014 nýttu einungis um 45% kosningabærra á aldrinum 20-24 ára rétt sinn til að kjósa.

Mikil vinna hefur verið lögð í að undirbúa skuggakosningarnar um allt land og er þess vænst að góð þátttaka verði í þeim. Skipuð hefur verið landskjörstjórn sem, eins og nafnið bendir til, hefur yfirumsjón með kosningunum um allt land en síðan eru kjörstjórnir í hverjum skóla, skipaðar nemendum og kennurum. Í yfirkjörstjórn í VMA eru: Hinrik Þórhallsson, kennari, formaður og með honum eru nemendurnir Lóa Aðalheiður Kristínardóttir, Kristófer Arnar Guðmundsson, Margrét Steinunn Benediktsdóttir og Berghildur Þóra Hermannsdóttir. Settur hefur verið upp vefurinn www.egkys.is þar sem ítarlegar upplýsingar eru um kosningarnar.

Kjörfundur verður í VMA kl. 09:00 á morgun, fimmtudag, til kl. 16:00 í Gryfjunni. Prentaðir hafa verið eins atkvæðisseðlar fyrir alla framhaldsskólana sem taka þátt í skuggakosningunum og að loknum kjörfundi í hverjum skóla verður atkvæðunum safnað saman á einn stað í Reykjavík og þau talin. Úrslit í skuggakosningunum verða síðan tilkynnt að kvöldi kjördags, 29. október, á vefnum www.egkys.is þegar kjörstöðum um land allt hefur verið lokað. Þá kemur í ljós hvort framhaldsskólanemar hafa kosið í takti við úrslit alþingiskosninganna eða ekki.

Rétt er að taka fram að skuggakosningarnar eru fyrir nemendur frá 16 ára aldri til 21 árs aldurs. Tvær kjördeildir verða á morgun í VMA, kjördeild 1 verður fyrir 18-21 árs og kjördeild 2 fyrir yngri en 18 ára. Gert er ráð fyrir að í það minnsta tuttugu nemendur komi að framkvæmd kosninganna á morgun, auk nokkurra kennara.

Eins og hér má sjá er vandað mjög til skuggakosninganna og fylgja skal öllum settum reglum landskjörstjórnar. Það verður sannarlega gaman að sjá hvernig til tekst í þessum fyrstu skuggakosningum ungs fólks sem hafa farið fram hér á landi.