Fara í efni

Um 32% kjörsókn í skuggakosningunum í VMA í dag

304 nemendur greiddu atkvæði í dag í VMA.
304 nemendur greiddu atkvæði í dag í VMA.
Tæp 32% nemenda á kjörskrá greiddu atkvæði í skuggakosningunum í VMA í dag en kjörfundi lauk kl.16 og hafði þá staðið síðan 9 í morgun. Í skuggakosningunum í VMA, eins og í flestum öðrum framhaldsskólum landsins, gengu nemendur að kjörborðinu og kusu á milli þeirra framboða sem eru í kjöri í Alþingiskosningunum 29. október nk., að röskum hálfum mánuði liðnum. Í VMA kusu nemendur á milli þeirra framboða sem eru í kjöri í Norðausturkjördæmi; Alþýðufylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Dögunar, Flokks fólksins, Framsóknarflokks, Íslensku þjóðfylkingarinnar, Pírata, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Vinstri grænna. 
Á kjörskrá í VMA voru 961 í tveimur kjördeildum, önnur fyrir yngri en 18 ára og hin fyrir 18-21 árs. Í eldri aldurshópnum voru 540 á kjörskrá og greiddu 117 atkvæði eða 22%, í yngri aldurshópnum voru 421 á kjörskrá og greiddu 187 atkvæði eða 44%. Að öllu samanlögðu var kjörsókn um 32%. Í eldri aldurshópnum var kynjaskipting þeirra sem greiddu atkvæði nokkuð jöfn en mun fleiri strákar greiddu atkvæði í yngri aldurshópnum.
Atkvæði úr öllum framhaldsskólunum verða talin úr einum potti í Reykjavík og verða niðurstöður atkvæðagreiðslunnar gerðar opinberar eftir kl. 22 að kvöldi kjördags 29. október nk., þegar búið verður að loka öllum kjörstöðum í sjálfum alþingiskosningunum. Niðurstöður þessara kosninga í dag hafa ekkert gildi, fyrst og fremst eru þær liður í lýðræðisvakningu hjá ungu fólki og um leið eru kosningarnar liður í því að hvetja ungt fólk til þess að nýta sinn atkvæðisrétt í alþingiskosningunum 29. október nk.