Fara í efni

Sjúkraliðanámið gefur mikla möguleika

Níels Ómarsson.
Níels Ómarsson.

„Eftir því sem ég best veit er ég annar tveggja stráka á sjúkraliðabrautinni eins og er. Strákar sýna þessu námi ekki nægilega mikinn áhuga, sem er miður því það vantar alltaf karla í heilbrigðisgeirann. Þetta nám er alls ekki ætlað konum frekar en körlum. Strákarnir halda oft að framhaldið af þessu námi sé bara að vinna sem hjúkka en það er bara alls ekki rétt. Það eru gríðarlega miklir möguleikar eftir þetta nám og manni standa í rauninni allar dyr opnar. Það er hægt að fara beint í vinnu sem sjúkraliði  en námið er líka góður grunnur fyrir hjúkrunarfræðinginn, sjúkraþjálfarann og svo margt fleira. Þetta er í heildina bara mjög góður grunnur fyrir lífið sjálft,“ segir Níels Ómarsson sem stundar nú nám á öðru ári á sjúkraliðabraut í VMA.

Níels er fæddur og uppalinn á Akureyri en á ættir að rekja til Hauganess við Eyjafjörð. Hann var í fyrsta bekk grunnskóla í Brekkuskóla en var síðan í Naustaskóla.

„Ég hafði lengi áhuga á því að verða fornleifafræðingur en frá því ég var smápolli hefur líka blundað í mér löngum til þess að starfa við umönnun og hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Það varð úr að ég valdi að fara í sjúkraliðann og sé ekki eftir því, mér finnst námið skemmtilegt og kennararnir mjög fínir,“ segir Níels og bætir við að hann geti alveg husað sér í framtíðinni að starfa sem sjúkraliði og einnig komi vel til greina að halda áfram og fara í sjúkraflutninganám.

En hvernig hefur covid-faraldurinn komið við nemendur í sjúkraliðanáminu? „Covid heur vissulega haft sitt að segja og eins og við má búast fer faraldurinn misjafnlega vel í nemendur. Við sjúkraliðanemendurnir erum mjög samheldnir, berum mikið saman bækur okkar og hjálpumst að. Um tíma var námið að hluta til fært í fjarnám en frá því var horfið og á endanum fengum við að taka sjúkraliðaáfangana áfram í dagskóla. Hins vegar eru almennir bóklegir áfangar eins og íslenska, stærðfræði og enska í fjarnámi. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að taka sjúkraliðaáfangana í staðarnámi því fjarnám hentar mér ekki en að sjálfsögðu verður maður að bíta á jaxlinn og taka hlutunum eins og þeir eru. Þetta kemur hægt og bítandi en til þess verðum við að sýna æðruleysi. Við erum saman í þessari krefjandi baráttu og þetta kemur á endanum."

Björgunarsveitarmaður, í búskap og á fullu í leiklistinni
Níels er ekki þekktur fyrir að sitja auðum höndum. Hann segist alltaf verða að hafa eitthvað fyrir stafni „og ég viðurkenni það fúslega að ég er mjög virkur, ef ekki ofvirkur!“ Hann starfar af fullum krafti í Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri, kemur að því ásamt fleirum að annast kindur og hesta í Breiðholtshverfinu ofan Akureyrar og sinnir leiklistinni af fullum krafti. „Ég byrjaði ungur að sækja leiklistarnámskeið hjá Leikfélagi Akureyrar og hef ekki tölu á því hvað þau urðu mörg. Árið 2018 byrjaði ég að starfa með Freyvangsleikhúsinu og tók þátt uppfærslu þess á Þreki og tárum. Í VMA tók ég þátt í uppfærslu Leikfélags VMA á Bugsy Malone. Undanfarin tvö leikár hef ég leikið í Freyvangsleikhúsinu, bæði í frumsömdu verki sem var samvinnuverkefni Freyvangsleikhússins og Leikfélags Hörgdæla og nú síðast lék ég í Dagbók Önnu Frank,“ segir Níels.

Leyndardómar Hlíðarfjalls
Hann hefur einnig tekið virkan þátt í áhugaverðu verkefni sem hefur ratað í fréttir, sem felst í því að safna upplýsingum og minjum um veru breskra, bandarískra og norskra hermanna í Hlíðarfjalli á árum síðari heimsstyrjaldar. Almennt er Níels mikill útivistarmaður og náttúruunnandi og kann best við sig úti í náttúrunni.

Flugslysið í Færeyjum árið 1970
Níels tók þátt í óvenjulegu verkefni nýverið þegar hann brá sér í flugmannsbúninginn og lék Pál Stefánsson, aðstoðarflugmann, sem komst lífs af þegar Fokker Friendship flugvél Flugfélags Íslands fórst á Mykinesi í Færeyjum 26. september árið 1970 – fyrir fimmtíu árum. Kringvarpið – færeyska sjónvarpið vinnur að heimildamynd um þetta mannskæða flugslys en í því létust Bjarni Jensson, íslenskur flugstjóri, og sjö farþegar sem allir voru frá Færeyjum. Áætlað er að sýna myndina í desember nk. Leikið atriði í myndinni var tekið upp á dögunum í Flugsafninu á Akureyri og var TF-SÝN, Fokker Friendship vélin sem þar er, notuð í upptökurnar. „Þannig var að félagar í Súlum hér á Akureyri voru á björgunaræfingu í Færeyjum fyrir nokkrum árum og þar kynnumst við manni sem er leikstjóri þessarar heimildamyndar. Hann hafði síðan samband þegar vinna við gerð myndarinnar hófst og úr varð að við tókum þátt í þessum upptökum í Flugsafninu,“ segir Níels.