Fara í efni

Sjúkraliðanámið er góður grunnur

Að loknu námi á sjúkraliðabraut VMA geta nemendur sótt um löggildingu starfsheitis sem sjúkraliðar. Meðalnámstími er sex annir í skóla auk fjögurra mánaða starfsþjálfunar. Algengt er að nemendur á sjúkraliðabraut haldi áfram námi í VMA og ljúki þar einnig stúdentsprófi – útskrifist því tvöfalt.

Að loknu námi á sjúkraliðabraut VMA geta nemendur sótt um löggildingu starfsheitis sem sjúkraliðar. Meðalnámstími er sex annir í skóla auk fjögurra mánaða starfsþjálfunar. Algengt er að nemendur á sjúkraliðabraut haldi áfram námi í VMA og ljúki þar einnig stúdentsprófi – útskrifist því tvöfalt.

Skömmu fyrir páska kynntu sautján nemendur á sjúkraliðabraut, sem annað hvort útskrifast í vor eða um næstu jól, lokaverkefni sín, en um er að ræða verkefni sem byggja á heimildaöflun. Bæði var um að ræða einstaklingsverkefni eða verkefni sem tveir nemendur unnu saman.  Að sögn Maríu Albínu Tryggvadóttur, brautarstjóra sjúkraliðabrautar, tóku umfjöllunarefni nemendanna mið af því sem þeir hafa kynnt sér í starfsnámi sínu; átröskun, alzheimer, gigt, lungnateppa, sykursýki, geðklofii, hjartabilun, geðhvarfasýki, keisaraskurðir og ristilkrabbamein.

Nemendur á sjúkraliðabraut VMA sækja starfsnám sitt út um allt land og einnig hefur nemendum staðið til boða starfsnám erlendis. Á þessari önn fóru þannig sex nemendur sjúkraliðabrautar í starfsnám á stofnanir í tveimur vinabæja Akureyrar á Norðurlöndum – annars vegar til Randers í Danmörku og hins vegar Lahti í Finnlandi. Á móti koma nemendur frá þessum stöðum til Akureyrar til þess að kynna sér starf sjúkraliða hér.

María Albína og Borghildur F. Blöndal, kennslustjóri raungreinasviðs VMA, segja að sjúkraliðanámið sé afar hagnýtt, bæði fyrir þá sem hyggjast starfa sem sjúkraliðar og einnig sem grunnur fyrir frekara nám á heilbrigðissviði. Borghildur segir að meirihluti nemenda á sjúkraliðabraut kjósi að ljúka einnig stúdentsprófi frá skólanum, með öðrum orðum útskrifist tvöfalt. Margir þessara nemenda halda áfram námi á háskólastigi í heilbrigðisvísindum, fara til dæmis í hjúkrun, sjúkraþjálfun eða iðjuþjálfun.