Fara í efni

Settu saman prufubekk fyrir Becromal

Prufubekkurinn fyrir Becromal.
Prufubekkurinn fyrir Becromal.
Verkmenntaskólinn leggur mikla áherslu á góð tengsl við atvinnulífið. Liður í því er að nemendur hinna ýmsu deilda skólans vinna hagnýt verkefni fyrir fyrirtæki. Eitt þessara verkefna er svokallaður prufubekkur fyrir álþynnuframleiðandann Becromal á Akureyri sem fjórir nemendur er luku námi í rafvirkjun í desember sl. unnu sem lokaverkefni á haustönn. Becromal er þessa dagana að taka prufubekkinn í notkun.

Verkmenntaskólinn leggur mikla áherslu á góð tengsl við atvinnulífið. Liður í því er að nemendur hinna ýmsu deilda skólans vinna hagnýt verkefni fyrir fyrirtæki. Eitt þessara verkefna er svokallaður prufubekkur fyrir álþynnuframleiðandann Becromal á Akureyri sem fjórir nemendur er luku námi í rafvirkjun í desember sl. unnu sem lokaverkefni á haustönn. Becromal er þessa dagana að taka prufubekkinn í notkun.

Guðmundur Ingi Geirsson, rafvirki og kennari við rafiðnadeild VMA, var leiðbeinandi piltanna við gerð prufbekkjarins. Guðmundur hóf störf sl. haust í fullu starfi við VMA en áður hafði hann einmitt starfað hjá Becromal og vissi þaðan að þörf væri á slíkum prufubekk.

„Á meðan ég starfaði í Becromal ræddum við rafvirkjarnir þar oft um að það vantaði slíkan prufubekk. Við höfðum aldrei tíma til þess að útbúa bekkinn sjálfir og því tóku stjórnendur Becromal því fagnandi þegar ég orðaði það við þá hvort ekki væri upplagt að fela nokkrum nemendum í VMA að útbúa bekkinn,“ segir Guðmundur.

„Ef einhver af vélunum í verksmiðjunni sem framleiðir álþynnurnar bilar þarf að koma henni í gang sem allra fyrst aftur. Til þess að leita að biluninni í vélinni kemur prufubekkurinn að góðum notum. Teknir eru ýmsir hlutir úr hinni biluðu vél og settir í prufubekkinn og þannig er hægt að komast fljótt til botns í því af hverju bilunin stafar. Þetta er því bráðnauðsynlegt tæki fyrir framleiðslufyrirtæki eins og Becromal.“

Guðmundur segir þetta hafa verið mjög gott verkefni og hagurinn af því sé mikill, bæði fyrir Becromal og nemendur. „Þeir fengu m.a. að spreyta sig á því að forrita iðntölvu og gera ýmsa flókna hluti og þeir voru allir sammála um að það hefði verið þeim mikill og góður skóli að leysa þetta verkefni. Verkfræðingur á Raftákn hannaði kerfið og lagði nemendunum lið við forritunina. Þetta er mjög sérhæfð forritun sem ekki er á færi hvers sem er,“ segir Guðmundur en nemendurnir sem eiga heiðurinn af því að hafa sett saman prufubekkinn eru Óttar Jónsson, Sigurður Árni, Birkir Heiðmann og Hákon Þór.

Becromal lagði tæknibúnaðinn til og kostaði gerð bekkjarins en fjórmenningarnir útfærðu bekkinn,  settu hann saman og gerðu kláran til notkunar.

Hér má sjá fleiri myndir af bekknum og fjórmenningunum sem eiga heiðurinn af honum.