Fara í efni

Sé ekki eftir því að hafa valið þessa leið

Jörgen Guðmundsson.
Jörgen Guðmundsson.

Það líður að lokum þessarar vorannar. Eftir helgina eru tveir síðustu kennsludagar annarinnar, á miðvikudag er námsmat, almennur frídagur er á uppstigningardag í næstu viku en síðan taka prófin við. Nemendur keppast þessa síðustu kennsludaga við að ljúka öllum verkefnum, bæði í bóknáms- og verknámsdeildunum. Árlegt sameiginlegt verkefni nemenda á öðru ári í húsasmíði í byggingadeild er, eins og við höfum áður sagt frá, að byggja sumarbústað frá grunni. Verkefnið tekur báðar annir, það hefst strax í upphafi skólaárs og lýkur að vori. Bústaðurinn er síðan seldur á því byggingarstigi sem hann er þegar vorönn lýkur. Gangur verksins er misjafnlega góður eftir árum, að þessu sinni er bústaðurinn kominn lengra en oft áður. Búið að klæða í loft í stofu/eldhúsi og svefnherbergi en þeim sem kemur til með að kaupa bústaðinn er eftirlátið að velja efni í loft baðherbergisins. En raflagnirnar eru komnar á sinn stað og það hafa nemendur í rafvirkjun séð um og nemendur í pípulögnum hafa séð um allar pípulagnir, þ.m.t. gólfhitalagnir. Og þessa síðustu daga annarinnar er unnið að því að setja upp eldhúsinnréttingu, koma fyrir opnanlegum gluggafögum og setja hurðir í bústaðinn.

Annars árs nemendur sem hafa unnið að þessu verkefni í vetur eru almennt sammála um að ekkert hafi verið þeim eins lærdómsríkt það sem af er í náminu og að takast á við byggingu sumarbústaðarins. Þetta viðamikla verkefni bjóði upp á svo ótal margt sem komi verðandi húsasmiðum að góðum notum á vinnumarkaði. Einn þessara nemenda er Jörgen Guðmundsson. Hann er frá Borgarfirði eystra en flutti fyrir þremur árum með fjölskyldu sinni til Akureyrar.

„Það er langt síðan ég ákvað að læra að verða smiður. Maður var sem krakki að bjástra við smíðar en vann að öðru leyti ekki sem unglingur í byggingarvinnu. Síðastliðið sumar vann ég hjá verktakanum Mikael ehf. á Höfn í Hornafirði, sem var fín reynsla. Vinnan fólst í að steypa hús, brýr og önnur mannvirki.

Ég byrjaði í grunndeildinni hér í VMA haustið 2016 og er því að ljúka öðru árinu núna. Það lá ljóst fyrir á sínum tíma þegar ég valdi þessa braut að ég vildi fara í verklegt nám. Bóklegt nám á ekki upp á pallborðið hjá mér. Ég hef áhuga á þessu og vildi því læra þetta. Reynsla mín af náminu er góð, ég hef lært margt hér og er mun betur undir það búinn núna en fyrir tveimur árum að fara út á vinnumarkaðinn og vinna í byggingarvinnu. Það ætla ég mér að gera í sumar. Ég er kominn á samning hjá byggingarverktakanum Trétaki hérna á Akureyri og byrja þar eftir að skólanum lýkur. Það leggst bara vel í mig. Við það er miðað að taka samningstímann hjá meistara áður en síðasti áfanginn í náminu hérna í skólanum er tekinn.

Einn af þeim þáttum í náminu sem hefur verið mjög lærdómsríkur, að mínu mati, er bygging sumarbústaðarins. Þetta hefur verið skemmtilegt og gefandi verkefni. Að vinna svona raunhæft verkefni undir leiðsögn kennaranna veitir manni innsýn í hvernig best er að gera hlutina. Það er engin spurning í mínum huga að þetta verkefni er okkur bráðnauðsynlegt og mun nýtast vel í framtíðinni. Maður fær góða sýn á skipulag við slíka byggingu og hvernig þetta allt saman virkar.

Ég er mjög sáttur við að hafa valið þessa námsbraut, hér hef ég lært margt sem mun nýtast mér vel,” segir Jörgen Guðmundsson.