Fara í efni

Einstakt í sögu VMA: Lýkur stúdentsprófi á tveimur árum

Gunnar Ingi Láruson.
Gunnar Ingi Láruson.

Gunnar Ingi Láruson, sautján ára Akureyringur, brýtur blað í sögu Verkmenntaskólans á Akureyri í vor þegar hann lýkur stúdentsprófi á tveimur árum – fjórum önnum. Gunnar Ingi hefur út í ystu æsar nýtt sér kosti áfangakerfisins og púslað saman þéttskipaðri stundatöflu í þessi tvö ár og auk námskeiða í dagskóla hefur hann tekið fjöldann allan af áföngum í fjarnámi. Núna á vorönn, þessari síðustu önn hans í skólanum, er hann í sjö áföngum í dagskóla og fimm í fjarnámi. Ekki nóg með að Gunnar Ingi taki námið í VMA á mun skemmri tíma en gengur og gerist, hann hefur þegar lokið námi til bæði svifflugmanns- og einkaflugmannsréttinda og leiðin framundan er bein og breið; í haust mun hann hefja nám hjá Keili til atvinnuflugmannsréttinda.

Þeir sem best þekkja til rösklega þrjátíu ára sögu VMA segja að námsferill Gunnars Inga sé algjörlega einstakur. Aldrei áður hafi nemandi lokið stúdentsprófi á tveimur árum. Áfangakerfið hefur hins vegar lengi boðið upp á að nemendur taki námið á meiri hraða en gengur og gerist og hin síðari ár hefur það færst í vöxt að nemendur hafi útskrifast með stúdentspróf eftir þriggja ára nám.

Gunnar Ingi hefur nýtt sér alla þá möguleika sem áfangakerfið í VMA býður upp á. Samhliða síðustu önn sinn í tíunda bekk Glerárskóla, vorið 2013, tók hann svokallaða matsönn í VMA, þ.e. hann tók sex próf í grunnáföngum í VMA og hafði því lokið sextán einingum þegar hann hóf reglulegt nám í skólanum haustið 2013. Þetta þýddi að hann gat strax farið í framhaldsáfanga í fögum sem hann tók próf í á matsönn. Á þeim fjórum önnum sem Gunnar Ingi hefur verið í VMA hefur stundataflan hans sannarlega verið þétt og hann hefur auk dagskólans jafnan verið í nokkrum fögum í fjarnámi. En árangurinn talar sínu máli, það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og viðkomandi hefur ríka skipulagshæfileika. Hvort tveggja á við um Gunnar Inga.

„Skipulag, skipulag, skipulag, það er galdurinn,“ segir Gunnar Ingi, þegar hann er inntur eftir því hvernig hann hafi farið að því að taka allt þetta nám á svo skömmum tíma. „Ég skipulegg mig vel og set alltaf niður á blað hvað ég verði að gera þann daginn.“
Á sínum tíma ákvað hann að fara í VMA vegna þess að hann sá að í áfangakerfinu ætti hann þess kost að taka námið á meiri hraða. Þess vegna var það hans niðurstaða að taka matsönn í VMA vorið 2013, samhliða því að ljúka 10. bekk í Glerárskóla.  „Upphaflega var ég með það í huga að ljúka stúdentsprófi frá VMA á þremur árum en strax á fyrstu og annarri önninni hér sá ég að raunhæft væri, ef ég myndi leggja mikið á mig, að ljúka þessu á tveimur árum. Ég tók 21 einingu á fyrstu önninni og fann að ég réð vel við það og gæti þess vegna tekið meira. Hér í VMA er ég skráður á viðskipta- og hagfræðibraut og útskrifast af henni auk þess sem stefnir í að ég ljúki sömuleiðis stúdentsprófi af félagsfræði- og náttúrufræðibraut.“

„Fyrir nokkrum árum fór ég að læra svifflug og ákvað síðan að taka bóklega hlutann í einkaflugmannsnáminu á haustönninni í tíunda bekk því hann gildir líka fyrir svifflugið. Ég lauk við svifflugmannsréttindin í júlí á sl. ári og kláraði einkaflugmanninn í janúar sl. Í framhaldinu ætla ég síðan að fara í atvinnuflugmannsnám og hef raunar nú þegar gengið frá samingi við Keili um að hefja það nám næsta haust. Ég hafði lengi haft áhuga á flugi en síðan gerðist það að mér var boðið í útsýnisflug og þá var ekki aftur snúið. Frelsið í fluginu heillar mig mest, það jafnast fátt á við að geta  flogið þangað sem mann langar til,“ segir Gunnar Ingi.

Hann segir að flugáhuginn hafi öðru fremur gert það að verkum að hann ákvað að freista þess að taka stúdentsprófið á skemmri tíma en gengur og gerist. „Mig langar einfaldlega að drífa mig sem fyrst í atvinnuflugmannsnámið og ná mér í þau réttindi. Atvinnuflugmaðurinn eru tvær bóklegar annir og síðan ein verkleg og er krafist 80-90 flugtíma í sjálfu náminu. Með því að vinna með náminu í VMA hef ég fjármagnað einkaflugmannsnámið sjálfur en það kostar um eina og hálfa milljón króna.  Atvinnuflugmannsnámið er hins vegar mun dýrara og ég held að enginn komist hjá því að taka námslán til þess að fjármagna það. Þetta verður mjög krefjandi nám en ég er reiðubúinn að takast á við það verkefni,“ segir Gunnar Ingi.

Vinnudagarnir hjá Gunnari Inga eru eðlilega langir. Vegna þess í hversu marga áfanga hann er skráður er skóladagurinn oft frá klukkan átta á morgnana til fjögur á daginn og þá tekur við launaða vinnan, því Gunnar Ingi skúrar tvo tíma á dag hjá sýslumannsembættinu á Akureyri, til þess að hafa efni á flugnáminu, eins og hann orðar það. „Heimanámið hefst síðan um eða eftir kvöldmat. Ég skipti fögunum niður á daga, tek eitt fag á mánudagskvöldum, annað á þriðjudagskvöldum o.s.frv. Púsla þannig saman dagskóla- og fjarnámsverkefnunum,“ segir Gunnar Ingi. Hann segir að vissulega þurfi mikið skipulag til þess að sitja sjö áfanga í dagskóla og stunda þar að auki nám í fimm fjarnámsáföngum, eins og hann geri á þessari önn. „En vissulega getur verið erfitt að koma þessu öllu heim og saman þegar í einni og sömu vikunni eru kannski fjögur próf og skil á fjölda heimaverkefna,“ segir Gunnar Ingi Láruson.