Fara í efni

Samningur Þórdunu og MAK um sýningar á Ávaxtakörfunni

Ólafur og Kristín Sóley undirrita samninginn.
Ólafur og Kristín Sóley undirrita samninginn.

Síðastliðinn föstudag var undirritaður samningur Þórdunu og Menningarfélags Akureyrar um sýningar Leikfélags VMA á Ávaxtakörfunni í stóra sal Menningarhússins Hofs í febrúar á næsta ári. Fyrir hönd Þórdunu skrifaði Ólafur Göran Ólafsson Gros formaður Þórdunu undir samninginn en Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri MAK fyrir hönd Menningarfélagsins.

Frumsýning á Ávaxtakörfunni verður í Hofi 11. febrúar 2018 og gera áætlanir ráð fyrir fjórum sýningum en einnig er möguleiki á aukasýningum ef vel gengur.

Upphaflega var horft til þess að Leikfélag VMA sýndi Ávaxtakörfuna í Samkomuhúsinu eins og í fyrra þegar félagið setti þar upp Litlu hryllingsbúðina en því varð ekki við komið vegna þess að húsið verður upptekið fyrir önnur verkefni á þessum tíma. Pétur Guðjónsson viðburðastjóri VMA og leikstjóri Ávaxtakörfunnar segir ánægjulegt að í því ljósi hafi Menningarfélag Akureyrar komið til móts við Leikfélag VMA þannig að unnt væri að koma sýningunni á fjalirnar í Hofi. „Það er bara mjög spennandi verkefni að setja Ávaxtakörfuna upp í Hofi – í besta sal hér norðan heiða – þar sem aðstaðan er eins og best verður á kosið,“ segir Pétur.

Þó svo að langt sé í frumsýningu er vinna við undirbúning uppfærslu á Ávaxtakörfunni hafin fyrir löngu og segir Pétur afar jákvætt að margir nemendur hafi nú þegar sýnt því áhuga að taka þátt í henni, með því annað hvort að leika eða vinna öll þau önnur verk sem þarf að vinna. Þann 10. október nk., á þriðjudag að viku liðinni, verða prufur í hlutverk í sýningunni og er þegar byrjað að skrá niður þá sem hafa hug á að taka þátt í þeim. Að hálfum mánuði liðnum ætti síðan að verða ljóst hvernig verður skipað í hlutverk í sýningunni.