Fara í efni

Revival í úrslit Ungra frumkvöðla 2025

Þær stofnuðu fyrirtækið Revival. Frá vinstri: Ester María Andreasdóttir Nyman, Karen Irani Þorgeirsd…
Þær stofnuðu fyrirtækið Revival. Frá vinstri: Ester María Andreasdóttir Nyman, Karen Irani Þorgeirsdóttir, Álfheiður Birta Þorsteinsdóttir og Vilborg Díana Jónsdóttir.

Eins og áður er núna á vorönn kenndur áfangi í frumkvöðlafræði í VMA og felst hluti námsins í því að stofna fyrirtæki um  viðskiptahugmyndir. Íris Ragnarsdóttir kennir áfangann og stofnuðu nemendur að þessu sinni fimm fyrirtæki. Þeir kynntu síðan fyrirtækin og viðskiptahugmyndirnar á árlegri Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralind 4.-5. apríl sl. Í það heila kynntu um140 fyrirtæki hugmyndir sínar og voru 30 þeirra valin í úrslitakeppni ungra frumkvöðla 2025 – þar á meðal eitt af fyrirtækjunum sem nemendur í frumkvöðlaáfanganum í VMA settu á stofn – Revival.

Að baki Revival standa Álfheiður Birta Þorsteinsdóttir, Karen Irani Þorgeirsdóttir, Ester María Andreasdóttir Nyman og Vilborg Díana Jónsdóttir og stofnuðu þær fyrirtækið um framleiðslu og sölu samnefnds fæðubótarefnis. Um er að ræða tvær mismunandi blöndur í duftformi, önnur er morgunblanda og hennar því neytt að morgni dags en hin blandan er hugsuð að kvöldi, fyrir svefninn. Markhópurinn er fyrst og fremst fólk á aldrinum 16-35 ára.
Í morgunblöndunni er m.a. kreatín og gúarana og er þessi blanda öðruvísi en í öðrum hérlendum fæðubótarefnum. Sérstaðan í kvöldblöndunni er kítósan, sem er fjölsykra úr kítíni sem er einangrað úr rækjuskel. Kítósanið dregur úr framleiðslu hormónsins kortisól og virkar slakandi á líkamamsstarfsemina að kvöldi dags.

Við samsetningu fæðubótarefnanna fékkst ráðgjöf frá sérfræðingum í fyrirtækinu Arctic Therapeutics ehf en samstarfsaðili um framleiðslu fæðubótarefnisins er Pharmarctica ehf. á Grenivík.

Þær Álfheiður, Karen, Ester og Vilborg segja að þessari hugmynd hafi verið mjög vel tekið á Vörumessunni í Smáralind en þær hafi engan veginn búist við því að verða valdar til þátttöku í úrslitum Ungra frumkvöðla. Þær hafi fengið að vita af því fyrradag og fyrirvarinn til undirbúnings í úrslitunum hafi verið skammur því í morgunsárið í dag, þriðjudag, hitti þær dómara í keppninni í höfuðstöðvum Arion banka í Reykjavík og á morgun verði þær á sama stað með fjögurra mínútna kynningu á hugmynd sinni ásamt öllum hinum 29 fyrirtækjunum.

Fimm fyrirtæki í frumkvöðlaáfanganum

Sem fyrr segir voru stofnuð fimm fyrirtæki í frumkvöðlaáfanganum, þ.m.t. framangreint Revival. Það er sannarlega mikill skóli fyrir nemendur að fara í gegnum slíkt ferli – allt frá hugmynd til framleiðslu – þ.m.t. markaðssetning, kynningarmál og salan sjálf. Í áfanganum fóru nemendur m.a. í heimsókn í Drift EA – miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á Akureyri, sem var sett á stofn á síðasta ári og er til húsa í Landsbankahúsinu við Ráðhústorg, og fengu afar góða og gagnlega kynningu á ýmsu varðandi frumkvöðlastarf.

Straum

Fyrirtæki Óðins Gunnarssonar, Logeyjar Garðarsdóttur, Daníels Freys Stefánssonar, Sigurðar Ágústs Jónssonar og Gunnars Berg Hannesarsonar kalla þau Straum og framleiðsluvaran er orkudrykkurinn Straumur. Í honum eru fjögur náttúruleg efni – engin rotvarnaefni – og er áherslan á hollustu. Framleiðslan hófst sl. föstudag í Bruggsmiðjunni Kalda á Ársskógsströnd og gengur salan vel.
Þeir Straum-menn segja að þetta hafi verið afar lærdómsríkt og skemmtilegt ferli og í raun hafi stofnun fyrirtækisins ekki verið eins stórt og flókið mál eins og þeir hefðu ímyndað sér áður en þeir fóru af stað.

Nordic Rogue

Nordic Rouge nefna Úlfur Blöndal Sigurðsson, Ragnar Logi Björnsson, Mikael Máni Jónsson og Snæbjörn Ingi Þorbjörnsson fyrirtæki sitt og er um að ræða framleiðslu á ilmefnum. Til að byrja með þróuðu þeir náttúrulegt ilmvatn en hugmyndin hefur þróast í rakspíra úr blöndu af náttúrulegum efnum og gerviefnum. Uppistaðan eru ilmkjarnaolíur og einnig fá þeir hluta af hráefninu frá Bretlandi. Rakspírann framleiða þeir sjálfir í heimahúsi og tappa á 50 og 100 millilítra glös, sem þeir keyptu frá Hollandi.
Þeir segja þetta hafa verið mjög lærdómsríkt ferli og það hafi komið þeim eilítið á óvart hversu mikil vinna sé að baki slíkri hugmynd. Eitt af því sem þeir hafi lært í þessari vinnu sé hversu mikilvægt sé að gera góða viðskiptaáætlun áður en farið er af stað. 

Northcount

Kristófer Lárus Jónsson, Heiðar Kató Finnsson, Kári Gunnar Ólafsson, Úlfar Örn Guðbjargarson og Almar Andri Þorvaldsson settu á stofn fyrirtækið Northcount um hönnun og forritun smáforrits – apps – sem nýtist ekki síst í vörutalningar í fyrirtækjum og útrými pappír við slíka vinnu. Hönnun smáforritsins er að baki en framundan er forritunarvinnan sem þeir félagar segja að sé yfirgripsmikil og kostnaðarsöm. Reikna megi með margra mánaða vinnu í forritunarvinnu og hún muni kosta sitt. En þeir segjast hafa mikla trú á þessu verkefni og sjá fyrir sér að fylgja því eftir næsta vetur, en allir verða þeir áfram í VMA á næsta skólaári.

Frost

Orkudrykkinn Frost hanna þeir Antoni Janzurawski, Viktor Breki Hjartarson, Bessi Mar Ottósson og Óli Þór Hauksson. Framleiðsla drykksins er í samstarfi við Bruggsmiðjuna Kalda á Árskógsströnd og til hennar fengu þeir m.a. astaxsanthin í duftformi frá fyrirtækinu Algalif.
Strákarnir segja að viðtökurnar hafi verið góðar og nú þegar séu þeir búnir að selja töluvert af drykknum. Honum er tappað á plastflöskur sem Ölgerðin lagði þeim til.
Þeir Frost-menn sögðu það sannarlega meira og flóknara mál en margur heldur að setja slíkt fyrirtæki á stofn, miklu fleiri tölvupóstar og fleiri símtöl en þeir hafi getað ímyndað sér. En þetta hafi sannarlega verið þess virði, afar fróðlegt og lærdómsríkt.