Fara í efni

Rauða eplið í Ávaxtakörfunni

Alexandra Guðný B. Haraldsdóttir.
Alexandra Guðný B. Haraldsdóttir.

Síðastliðinn mánudag urðu ákveðin kaflaskil í æfingaferli á Ávaxtakörfunni, sem Leikfélag VMA setur upp í Menningarhúsinu Hofi, því þá fluttust æfingar á verkinu úr VMA og niður á stóra sviðið í Hofi. Spennan magnast, nú styttist í frumsýningu og ekki eftir neinu að bíða með að tryggja sér miða því aðeins verða fjórar sýningar á verkinu í Hofi.

Alexandra Guðný B. Haraldsdóttir er í leikarahópnum í Ávaxtakörfunni, hún fer með hlutverk Rauða eplisins. “Æfingatíminn á verkinu hefur verið frábærlega skemmtilegur. Vissulega hefur þetta verið mikil vinna en hópurinn sem hefur unnið að uppsetningunni hefur verið mjög þéttur og skemmtilegur. Það er heilmikil törn framundan í æfingum í Hofi en mér list vel á þetta. Ég er viss um að sýningin verður rosalega flott,” segir Alexandra og upplýsir að hún hafi áður leikið í uppfærslu Leikfélags VMA, það hafi hún gert á fyrsta ári sínu í VMA í 101 Reykjavík. “Í grunnskóla tók ég þátt í ýmsum uppákomum. Mér finnst mjög gaman að koma fram og dansa og syngja. Í tvígang hef ég tekið þátt í Sturtuhausnum – Söngkeppni VMA og því er ég með töluverða reynslu af því að standa á sviði. Ég get ekki beðið eftir sýningunum á Ávaxtakörfunni, ég held að þetta verði frábært,” segir Alexandra.

Leikhópurinn hefur röska viku til þess að tengja saman alla þá enda sem þarf að koma saman. Frumsýning verður í Hofi sunnudaginn 11. febrúar kl. 14 og þann sama dag kl. 17 verður önnur sýning á verkinu. Hinar tvær sýningar á verkinu verða síðan sunnudaginn 18. febrúar kl. 14 og 17.

Alexandra Guðný er Akureyringur. Fyrsta grunnskólaárið sitt var hún í Glerárskóla en níu árin eftir það var hún í Oddeyrarskóla. Síðan lá leiðin upp í VMA – í hennar huga kom aldrei annað til greina en að fara á listnámsbraut. Hún innritaði sig á textíllínu og var á henni fyrsta árið. Fór síðan haustið eftir sem skiptinemi á vegum AFS til smábæjar í Belgíu, rétt við landamærin að Þýskalandi. Var þar fram að áramótum og skipti síðan yfir á myndlistarlínu þegar hún kom heim og mun útskrifast af henni í vor.

Að fara sem skiptinemi út fyrir landssteinana er eitthvað sem Alexandra segist alls ekki sjá eftir, þetta sé eitthvað sem allir hefðu gott af því að prófa. “Það er afar þroskandi að fara í nýtt skólaumhverfi, vera hluti af nýrri menningu og tileinka sér nýtt tungumál. Að vera skiptinemi gefur ágætt tækifæri til þess að standa á eigin fótum og læra á sjálfan sig. Það er öllum hollt að prófa þetta, fara út fyrir þægindarammann og standa á eigin fótum. Til að byrja með talaði ég ensku við fólkið sem ég bjó hjá og sömuleiðis krakkana í skólanum en ég komst fljótt að raun um að enskukunnátta krakkanna var mun minni en ég átti að venjast frá Íslandi. Þess vegna ákvað ég fljótlega að leggja hart að mér við að læra frönskuna til þess að geta talað við krakkana og einnig við fólkið sem ég bjó hjá,” segir Alexandra.

Eftir dvölina í Belgíu hefur Alexandra unnið sem sjálfboðaliði hjá AFS-skiptinemasamtökunum og setið í Norðurlandsstjórn samtakanna. Þá hefur hún verið tengiliður skiptinema í VMA.

“Það var einhvern veginn ekkert sem kom annað til greina en að fara í listnám í framhaldsskóla. Ég hef verið að teikna síðan ég var barn. Námið hefur gefið mér mikið og ég hef kynnst fullt af frábærum nemendum og kennurum hér í VMA. Hvað verður eftir VMA kemur bara í ljós. Ég hef ekkert ákveðið um slíkt. Mig langar eiginlega að gera allt. Það eru allir gluggar opnir. Ég er satt best að segja með hálfgerðan valkvíða. Ég reikna þó með að halda mig við listina, en á hvað sviði, það er er spurningin,” segir Alexandra.

Á veggnum gegnt austurinngangi VMA hangir uppi akrílverk eftir Alexöndru sem hún vann í áfanga hjá Björgu Eiríksdóttur. Hún segir að vissulega sé verkið á ýmsan hátt persónulegt. Hún sjálf sé barnið sem liggi í rúminu, við hlið þess sé bangsinn sem hún tók ástfóstri við fjögurra ára gömul og yfir henni sé skrímsli sem vísi til þess að þegar hún var yngri hafi hún stundum fengið martraðir og séð hinar ýmsu forynjur í svefni. Það tímabil hafi síðan gengið yfir en verkið vísi vissulega til sterkra minninga úr æsku. Bangsann góða segist Alexandra hafa fengið að gjöf eftir aðgerð sem hún þurfti að gangast undir á Landspítalanum fjögurra ára gömul. Hann hafi alltaf fylgt henni þar til leiðir skildu að loknu skiptináminu í Belgíu. Þegar Alexandra var komin upp í flugvélina á leið heim til Íslands uppgötvaði hún að bangsinn góði varð eftir í flugstöðinni. Þrátt fyrir eftirgrennslan tókst ekki að hafa upp á bangsanum en nú sprettur hann sem sagt fram í sterkri barnsminningu Alexöndru.