Fara í efni

Rafmagnið heillar

Sl. haust hófu 47 nám í grunndeild rafiðna.
Sl. haust hófu 47 nám í grunndeild rafiðna.

Það er heldur betur þétt setinn bekkurinn í grunndeild rafiðna í VMA núna á haustönn. Í haust hófu 47 nemendur nám í deildinni sem  er meira en áður hefur sést og sker VMA sig úr á landsvísu í fjölda innritaðra nemenda í rafiðnnám á þessu skólaári. Gunnar Frímannsson kennari segir erfitt að meta hvað skýrir þennan mikla áhuga á náminu en mögulega hafi þar eitthvað að segja að á Akureyri og nágrenni hafi verið mikið að gera fyrir fólk með þessa menntun.

Af öllum þessum fjölda nýnema í grunndeild rafiðna er aðeins ein kona. Gunnar segist ekki vita hvað valdi því að þetta nám höfði ekki í meira mæli til kvenna en fullyrða megi að rafvirkjun sé alls ekki meira karla- en kvennastarf og þær konur sem lagt hafi þessa iðngrein fyrir sig standi sig mjög vel í starfi.

Eins og nafnið gefur til kynna er markmiðið með grunnnámi rafiðna, sem er fjórar annir í skóla, að veita nemendum almenna og faglega undirstöðumenntun í rafiðngreinum áður en þeir fara út í sérhæfingu, t.d. rafeindavirkjun, rafvirkjun eða rafvélavirkjun. Velji nemendur til dæmis að fara í rafvirkjun ljúka þeir náminu í skóla á sjö önnum en sex önnum ef þeir taka að hluta námið hjá meistara úti í bæ. Fyrir næstu jól útskrifast nokkrir nemendur sem rafvirkjar og þeim gefst síðan kostur á að taka sveinspróf í faginu eftir áramót. Þar með hafa þeir lokið öllu námi, nema því aðeins að þeir taki meistaranámið á síðari stigum.

Þegar litið var inn í kennslustund í grunndeild rafiðna var Gunnar Frímannsson að láta einn af fjórum hópum nýnema spreyta sig á verkefni í rafmagnsfræði. Verkefnið gekk út á að kanna spennufall í tvíleiðara við mismunandi straum, í öðru lagi viðnám í tvíleiðara við mismunandi straum og í þriðja lagi viðnám peru við mismunandi straum. „Á þessari fyrstu önn förum við með nemendum í ákveðinn hluta rafmagnsfræðinnar, við veitum þeim líka lítillega innsýn í stýringar og einnig er farið í undirstöður raflagna í íbúðarhús. Þá þjálfum við nemendur í að vinna með verkfæri og kennum þeim lóðningar, svo eitthvað sé nefnt. Við höldum síðan áfram að byggja ofan á þennan grunn á næstu önn,“ segir Gunnar.