Fara í efni

Pípulagnir hafa komið skemmtilega á óvart

Birna H. Bergstað Þórmundsdóttir.
Birna H. Bergstað Þórmundsdóttir.

Núna á vorönn stunda tíu nemendur nám í pípulögnum og hefur Elías Örn Óskarsson, pípulagnameistari, umsjón með náminu. Pípulagnir er kenndar á vorönn og hófu þessir nemendur fagnám sitt á vorönn 2020. Að lokinni þessari önn eiga nemendur ólokið einni önn áður en þeir geta farið í sveinspróf. Undanfari náms í pípulögnum er tveggja anna nám í grunndeild byggingagreina. Til viðbótar við skólatímann er áskilinn samningstími hjá meistara.

Í hópi þessara tíu nemenda er ein kona – Birna H. Bergstað Þórmundsdóttir. „Ég fór í grunndeild byggingagreina árið 2017. Síðan fór ég að vinna og hugsaði málið en þegar ég sá auglýsingu um að VMA ætlaði af stað með nýjan hóp í pípulögnum ákvað ég að sækja um og í framhaldinu komst ég á námssamning hjá pípulagnafyrirtækinu Bút hér á Akureyri. Í stuttu máli sagt hefur mér fundist námið vera mjög skemmtilegt og ég skil hreinlega ekki af hverju konur fara ekki í þessa iðngrein. En trúlega hefur það eitthvað með ímyndina að gera, sú mynd sem oft er dregin upp af starfi pípara er að það sé óþrifalegt. Það er hins vegar alls ekki svo. Fólk gerir sér ranghugmyndir um hvað þessi iðngrein snýst í dag. Drjúgur hluti af starfi pípulagningamanna er lagnir í nýjum húsum og það er alls ekki óþrifaleg vinna. Pípulögn er ákveðin list sem krefst oft mikilla pælinga. Námið og starf pípulagnamanna hefur komið mér skemmtilega á óvart,“ segir Birna.

Hún hafði verið áður í VMA, stúdentsprófi af náttúruvísindabraut lauk hún árið 2015. „Ég var fyrst í einn vetur í MA, fór síðan suður og var í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í eina önn. Kom þá norður og fór í VMA. Síðan tóku við barneignir og ég tók jafnframt áfanga í fjarnámi hérna í VMA. Í lokin tók ég í dagskóla þau þrjú fög sem upp á vantaði til stúdentsprófs og lauk náminu árið 2015,“ segir Birna. Hún er þrjátíu og fimm ára gömul og segist kunna því afar vel að sitja aftur á skólabekk. „Ég yngist bara af því að vera með ungu strákunum, ég verð tvítug á ný! Einn í hópnum er reyndar jafnaldri minn en hinir strákarnir eru miklu yngri. Það er aldrei of seint að læra og ég hef velt því fyrir mér að halda áfram eftir að ég lýk þessu námi og fara í fjarnám í byggingariðnfræði við Háskólann í Reykjavík.“

Birna er með mörg járn í eldinum. Auk þess að læra og starfa við pípulagnir og auðvitað að reka heimili er hún knattspyrnudómari. „Ég fékk dómararéttindi árið 2009 og hef síðan verið að dæma annað slagið, mest sem aðstoðardómari,“ segir Birna sem er frá Blönduósi en hefur búið á Akureyri í mörg undanfarin ár.