Fara í efni

Óteljandi möguleikar í Fab Lab

Hinn nýi þrívíddarprentari Fab Lab Akureyri.
Hinn nýi þrívíddarprentari Fab Lab Akureyri.

Nemendur á annarri önn í grunndeild byggingadeildar sitja við tölvurnar í Fab Lab Akureyri, sem er staðsett í VMA. Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri Fab Lab smiðjunnar, leiðir nemendur áfram í notkun hönnunarforrits til þess að móta allskonar munstur sem skreytingu á náttborð sem þeir smíða sér á önninni. Munstrin eru síðan skorin út í viðinn í laserskurðarvélinni í Fab Lab. Þetta er eitt af dæmum um hvernig þeir óteljandi möguleikar sem Fab Lab tæknin býður upp á nýtist í náminu í VMA.

Fab Lab Akureyri hefur verið starfrækt síðan snemma árs 2017. Á þessum tíma hefur starfsemin mótast og eflst. Undir lok síðasta árs keypti smiðjan nýjan þrívíddarprentara, sem lætur lítið yfir sér en er töluvert öflugri en þeir tveir sem fyrir eru. Prentarinn var keyptur frá fyrirtækinu PRUSA í Ungverjalandi  og kom hingað ósamsettur en Jón Þór og Árni Björnsson tæknifulltrúi VMA/Fab Lab Akureyri settu hann saman og komu haganlega fyrir. Við prentarann eru vefmyndavélar sem gerir það að verkum að hægt er að fylgjast með gangi mála við prentunina í gegnum síma eða tölvu utan húss. Þetta er mikill kostur því oft tekur drjúgt langan tíma að prenta ýmsa hluti í þrívídd.

Árni Björnsson vinnur að hluta sem tæknifulltrúi í VMA og að hluta vinnur hann í Fab Lab Akureyri. Árni er þessa dagana að hefja krefjandi nám í Fab akademíu í Bandaríkjunum þar sem hann lærir um allt á milli himins og jarðar um leyndardóma Fab Lab og hvað þessi tækni býður upp á. Árni fylgist með fyrirlestrum í beinu streymi eða getur séð upptökur af þeim og vinnur ýmis verkefni. Aðalkennari í Fab Academy er Neil Gershenfeld, prófessor við MIT háskólann í Massachusetts. Þátt taka starfsmenn Fab Lab smiðja út um allan heim. Upp á þetta nám, sem er umtalsvert krefjandi, er boðið á hverju ári. Því lýkur með lokaverkefni í júní nk. Árni, sem er bæði bifvélavirki og tölvunarfræðingur að mennt, segir að námið leggist prýðilega í sig, það verði vissulega krefjandi en hann sé ekki óvanur slíku. Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri Fab Lab Akureyri, hefur áður farið í gegnum þetta nám Fab Academy.