Fara í efni

Of fáir nota öndunargrímur

Byggingadeild efndi til málstofu um öndunargrímur.
Byggingadeild efndi til málstofu um öndunargrímur.

Við Íslendingar eru farnir að þekkja allvel til andlitsgríma, sem kemur ekki til af góðu; kórónuveirufaraldurinn. Einnota grímur, taugrímur í öllum regnbogans litum, grímur merktar fyrirtækjum og stofnunum. Grímur eru orðnar að tískuvöru.

Allt öðruvísi grímur eru hins vegar svokallaðar öndunargrímur sem iðnaðarmenn nota. Reyndar er það svo að þeir gera að flestra mati alls ekki nógu mikið af því að nota öndunargrímur því oft og tíðum starfa þeir í mjög heilsuspillandi lofti og anda því að sér, grímulausir og án nokkurra varna.

Í vikunni efndi byggingadeild VMA til málstofu um öndunargrímur. Forráðamenn deildarinnar buðu til sín fulltrúum frá fyrirtækinu Würth sem er með umboð fyrir öndunargrímur frá framleiðandanum Sundström.

Margt athyglisvert kom fram um notkun á öndunargrímum. Meðal annars það að um 80% þeirra sem nota slíkar grímur hafa ekki fengið ráðleggingar um notkun þeirra. Því það er hreint ekki nóg að setja upp öndunargrímuna, það þarf að þekkja til eiginleika hennar, velja rétta stærð fyrir mismunandi andlitsfall o.s.frv. Og þeir karlmenn sem eru með skegg eru ekki eins vel varðir og þeir sem eru vel rakaðir á degi hverjum! Allar tölur benda til þess að notkun öndunargríma sé allt of lítil hér á Íslandi og við stöndum nágrannaþjóðunum langt að baki í þessum efnum og almennt hvað varðar notkun öryggisbúnaðar við vinnu.

Fram kom á málstofunni að ástæðan fyrir því að nota öndunargrímu almennt í vinnu þar sem hætta sé á óæskilögum ögnum í andrúmsloftinu sé fyrst og síðast að verja lungun. Skaði getur orðið á lungum hjá fólki á löngum tíma, sé ekki hugað að þessum öryggisþætti, og það gildi um þetta eins og margt annað að of seint sé að byrgja brunninn þegar barnið sé dottið ofan í hann.

Hjá mörgum iðnaðarmönnum er hættumerkin víða. Nægir þar að nefna allskyns rykagnir, eiturgufur frá lökkum og fleira. Ef vitin eru ekki varin rétt getur orðið hættuleg erting á slímhúð og í öndunarvegi, áhrifin geta komið fram á taugakerfið, hjarta, lifur og auðvitað í lungum og nýrum, að ekki sé minnst á augu og húð.