Fara í efni

Öðruvísi nálgun í tungumálanámi

Hilmar Friðjónsson kennari.
Hilmar Friðjónsson kennari.

Aukin tækni á öllum sviðum gerir það að verkum að unnt er að fara út á nýjar áður óþekktar brautir í kennsluaðferðum. Hilmar Friðjónsson kennari við VMA dregur ekki dul á að hann hafi áhuga á tækni og hafi ánægju af því að þreifa sig áfram á nýjum og áður óþekktum brautum. Hann hefur nýtt sér tæknina í stærðfræðikennslu og einnig hefur hann prófað sig áfram á óhefðbundinn hátt í tungumálakennslu.

Hilmar tekur fram að hann sé ekki tungumálakennari en hafi hins vegar fengið tækifæri til þess að láta nemendur á brautabrú í VMA spreyta sig núna á haustönn á því að þýða texta kvikmynda yfir á íslensku. Hann segir að fyrir nokkrum árum hafi hann ásamt fleiri kennurum í VMA látið á þá hugmynd reyna hvort nemendur hefðu áhuga á slíku og í ljós hafi komið að þeir höfðu mikla ánægju af slíkum þýðingum. Það sama hafi verið uppi á teningnum núna á haustönn, langflestir nemendur hafi sýnt verkefninu mikinn áhuga og sökkt sér ofan í það.

Hilmar segir að upplifun sín af því að nálgast tungumálakennslu með þessum hætti, með hjálp tækninnar, sé afar ánægjuleg. „Við erum eingöngu að vinna með þetta inn í kennslustofunni sem kennslutæki en afraksturinn fer ekki út á netið,“ segir Hilmar.

Ýmsar vefsíður eru á veraldarvefnum þar sem unnt er nálgast efni í þessu skyni – t.d. opensubtitles.org og subscene.com. Og ekki má gleyma vefsíðunni ted.com þar sem má finna ógrynni af myndböndum með t.d. fyrirlestrum. Sjá má á síðunni að texta sumra þessara myndbanda hefur verið snarað yfir á íslensku. Hilmar segir að tæknin sé í raun engin fyrirstaða og því megi vel hugsa sér að þeir nemendur sem eru lengra komnir í t.d. ensku spreyti sig á því að þýða texta slíkra myndbanda á ted.com á íslensku. Það gæti verið áhugaverður kostur í fjölbreytni í tungumálanáminu.