Fara í efni

Nýr vélstjórnarhermir í VMA

Lítill hluti af hinum nýja vélstjórnarhermi í VMA.
Lítill hluti af hinum nýja vélstjórnarhermi í VMA.

Í sumar hefur verið unnið að því að koma fyrir nýjum vélstjórnarhermi í húsnæði vélstjórnarbrautar VMA. Samskonar hermir kom í Tækniskólann í sumar og einnig kom þangað nýr skipstjórnarhermir. Þessir þrír hermar voru keyptir að undangengnu útboði Ríkiskaupa. Vélstjórnarhermirinn í VMA var tekinn formlega í notkun sl. föstudag og þá tók Einar Örn Gíslason nemandi í rafeindavirkjun í VMA þessar myndir.

Það er óhætt að segja að nýi hermirinn sé stór og gefi mikla möguleika. Hugbúnaðurinn í herminum líkir eftir annars vegar vélarrúmi flutningaskips og hins vegar ferju. Kennarar vélstjórnarbrautar segja afar ánægjulegt að fá þennan nýja vélstjórnarhermi til að kenna verðandi vélstjórum.

„Hermirinn líkir eftir alvöru vélarrúmi í alvöru skipi. Við höfum frá upphafi þessarar deildar verið með hermi og er þessi nýi hermir sá þriðji í röðinni. Að sumu leyti var eldi hermirinn orðinn úreltur og ekki eins sveigjanlegur og þessi nýi. Það er sannarlega mikil framför að fá þennan nýja hermi. Engu að síður notum við gamla herminn líka eftir sem áður því hann hefur ákveðna hluti sem sá nýi hefur ekki,“ segir Gunnar Möller, kennari í vélstjórn

Vélstjórnarhermir er afar mikilvægur hlekkur í námi vélstjórnarnema og nýtist þeim strax á annarri önn í náminu.  „Nemendum verður oft ljósara samhengið í þessu öllu saman þegar þeir sjá þetta fyrir framan sig á skjám. Hermirinn hjálpar því verulega til með skilning nemenda og auðveldar okkur kennurum að útskýra hlutina,“ segir Gunnar.

„Það má segja að hermirinn opni oft augu nemenda fyrir því hvernig þetta tengist allt saman, hvernig öll þessi kerfi gera vélinni kleift að ganga og hvað gerist ef eitt þeirra bregst. Það auðveldar mjög skilning nemendanna að sjá þetta á myndrænan hátt,“ segir Jóhann Björgvinsson, kennari í vélstjórn.

 „Á fyrstu stigum kynnast nemendur herminum með frekar einföldum verkefnum, t.d. með því að sýna hvernig á að ræsa ljósavél. Á síðari stigum er farið að setja inn bilanir og nemendum falið að ráða fram úr því hvernig þeir takast á við slíkt,“ bætir Elías Þorsteinsson, kennari í vélstjórn, við.

„Samkvæmt alþjóðareglum eiga vélstjórnarnemar að hafa aðgang að hermi og fá ekki fullgild alþjóðaréttindi fyrr en þeir hafa farið í gegnum slíka kennslu. Ég tel að hér á landi stöndum við nokkuð vel að vígi í vélstjórnarnámi og það er afar mikilvægt að geta nýtt sér nýjustu tækni við kennsluna,“ segir Gunnar Möller.