Fara í efni  

Áhuginn er lykilatriði

Áhuginn er lykilatriði
Daníel Ingi Kristinsson.

Nú stundar tugur nemenda nám í bifvélavirkjun í VMA. Til þess að innritast í námið þurfa nemendur að hafa áður tekið grunndeild málm- og véltæknigreina, sem er tvær annir. Nemendahópurinn sem nú stundar nám í bifvélavirkjun lýkur því í vor – þ.e.a.s. náminu í skólanum – en auk þess ber nemendum eins og í öðrum iðngreinum að ljúka ákveðnum lágmarks tíma á verkstæði undir handleiðslu meistara.

Fyrir nokkrum árum var bifvélavirkjunin kennd í aðstöðu úti í bæ en síðustu annir hefur öll kennslan verið innan veggja skólans – bæði bókleg og verkleg. Þegar litið var inn í kennslurýmið í bifvélavirkjun voru nemendur undir stjórn Braga Finnbogasonar kennara og brautarstjóra bíliðngreina að mæla þjöppun í nokkrum bílum. Bílaverkstæðin á Akureyri hafa verið fús að leggja náminu lið með ýmsum hætti, m.a. með því að láta námsbrautinni í té bíla til þess að leyfa nemendum að spreyta sig á við hinar ýmsu viðgerðir og bilanagreiningar.

Einn þeirra nemenda sem stunda nú nám í bifvélavirkjun í VMA er Akureyringurinn Daníel Ingi Kristinsson. Að loknu grunnnámi málm- og véltæknigreina fór hann í vélstjórn en færði sig yfir í bifvélavirkjunina og kann vel við hana. „Ég hef mikinn áhuga á vélum og hef lengi haft. Í gegnum tíðina hef ég átt nokkur mótorhjól,“ segir Daníel Ingi og bætir við að hann telji algjört lykilatriði fyrir þá sem fara í bifvélavirkjun að hafa brennandi áhuga á viðfangsefninu. „Síðustu tvö sumur hef ég starfað á bifreiðaverkstæðum hér á Akureyri – Car-X og Baugsbót – og eins og staðan er núna sé ég fyrir mér að starfa í framtíðinni sem bifvélavirki. Hins vegar kemur til greina að mennta sig frekar, bifvélavirkjun er til dæmis mjög góður grunnur fyrir þá sem vilja læra flugvirkjun,“ segir Daníel Ingi.


Getum við bætt efni síðunnar?

VERKMENNTASKÓLINN Á AKUREYRI

Skrifstofa VMA er opin alla virka daga frá kl. 08:00 - 15:00, nema föstudaga frá kl 08:00-13:00.