Fara í efni

Myndefni í minningum um Jón forseta

Páll Björnsson.
Páll Björnsson.

Í dag, þriðjudaginn 7. febrúar, kl. 17-17.40, verður áhugaverður fyrirlestur í þriðjudags fyrirlestraröðinni í Ketilhúsinu. Páll Björnsson, prófessor í sagnfræði og nútímafræði við Háskólann á Akureyri heldur fyrirlestur undir yfirskriftinni Maður í mynd: Myndefnið í minningunum um Jón forseta.

Á 20. öld varð Jón Sigurðsson forseti að einu mikilvægasta sameiningartákni meðal Íslendinga. Þá gengu minningarnar um Jón í gegnum endurnýjun lífdaga með margvíslegum hætti, t.a.m. hátíðahöldum, sögusýningum, pílagrímastöðum, minnismerkjum, kveðskap, bókaútgáfu, minjagripum og myndverkum.
Í fyrirlestri sínum beinir Páll kastljósinu að hinu myndræna í þessari þróun, þ.e. hvernig myndefni hefur verið notað til þess að styrkja og viðhalda stöðu Jóns forseta sem þjóðhetju.

Páll Björnsson lærði sagnfræði og heimspeki við Háskóla Íslands, stundaði framhaldsnám í sagnfræði við háskólana í Göttingen og Freiburg í Þýskalandi, og lauk síðan doktorsprófi í þeirri grein frá Rochester-háskóla í New York. Hann hefur einkum fengist við rannsóknir á þjóðerniskennd, frjálslyndisstefnunni og viðhorfum til kynjanna. Hann var ritstjóri tímaritsins Sögu 2003–2008 og hefur einnig sinnt félagsmálum, meðal annars sem formaður Sagnfræðingafélags Íslands á árunum 2000 til 2004.

Aðgangur er ókeypis.