Fara í efni

Mygla í húsum og rakavarnalög

Hluti þátttakenda á námskeiðinu í dag.
Hluti þátttakenda á námskeiðinu í dag.

Í dag var námskeið í húsnæði byggingadeildar VMA á vegum Iðunar fræðsluseturs um hvernig unnt sé að forðast myglu í húsum með rakavarnalögum. Námskeiðið var vel sótt af starfandi byggingamönnum á Akureyri og einnig sátu það nokkrir nemendur og kennarar úr VMA. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Agnar Snædahl, byggingaverkfræðingur og húsasmíðameistari.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að mygla í húsum er hreinlega faraldur á Íslandi. Nær daglega eru fluttar fréttir af húsum þar sem mygla hefur komið upp og hefur þar mest verið áberandi skólahúsnæði. Fyrir utan gríðarlegt fjárhagslegt tjón af myglu í húsum getur hún leitt til alvarlegra veikinda hjá fólki. Um það eru mýmörg dæmi.

Það er því engin tilviljun að Iðan fræðslusetur efnir til námskeiða um þessi mál út um allt land, m.a. í VMA í dag. Á námskeiðinu kynnti Agnar frágang raka-, vind- og vatnsvarnalaga með efnum frá framleiðandanum SIGA.

Staðreyndin er sú að vel frágengin öndunar- og rakavarnarlög eru einn af lykilþáttum í vel hönnuðum og orkusparandi húsum. Mikilvægustu hlutar varmahlífarinnar eru grunnurinn, ytri veggir, þök, gluggar og hurðir.

Námskeiðið í dag var blanda fyrirlesturs Agnars og verklegrar kennslu í notkun á framangreindum efnum.