Fara í efni

Mikið um að vera í Evrópuverkefnum á næstunni

Mikið verður um að vera í Evrópuverkefnum í VMA.
Mikið verður um að vera í Evrópuverkefnum í VMA.

Það verður mikið um að vera á næstunni í Evrópuverkefnum sem VMA tekur þátt í. Nemendahópar koma til landsins erlendis frá og taka þátt í verkefnum hér á landi og nemendur og kennarar úr VMA verða á faraldsfæti á næstu vikum og taka þátt í ýmsum verkefnum í útlöndum.

Núna á haustdögum eru nemendur frá Danmörku og Finnlandi í starfsnámi á Akureyri í nokkrar vikur hver nemendi. Um er að ræða nemendur frá samstarfsskólum VMA í Randers og Herning á Jótlandi í Danmörku, sem mennta nemendur fyrir umönnunarstörf, og verða þeir í starfsnámi á Kristnesi, dvalarheimilum aldraðra á Hlíð og Lögmannshlíð og leikskólanum Klöppum á Akureyri. Einnig kemur nemandi í ferðamálafræðum frá samstarfsskóla VMA í Lahti í Finnlandi og starfar um hríð hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu á Akureyri.

Í næstu viku verður næsti áfangi í Erasmus verkefninu Ready for he World, sem VMA tekur þátt í. Hinir tveir skólarnir í verkefninu eru í Randers í Danmörku og Harderwiijk í Hollandi. Á síðasta skólaári fóru nemendur frá VMA í þessu verkefni til Randers og síðan aftur til Harderwiijk. Nú er komið að VMA að vera gestgjafi og því verður ýmislegt um að vera í þessu samstarfsverkefni í VMA í næstu viku.

Síðari hluta október fara tveir kennarar af rafiðnbraut og fjórir nemendur af brautinni til Kanaríeyja og taka þar þátt í smiðju sem er liður í Erasmus samstarfsverkefninu Electroeco Team. Verkefnið er samstarfsverkefni sex skóla sem kenna rafiðn og er stýrt af VMA. Á vorönn 2022 fóru nemendur og kennarar úr VMA til Tyrklands til þess að taka þátt í verkefninu og í maí sl. var VMA gestgjafi í verkefninu. Aðrir samstarfsaðilar koma frá Slóveníu, Hollandi og Ungverjalandi.

Þá er þess að geta að tveir rafiðnkennarar úr VMA fara til Portúgal síðar í þessum mánuði til þess að taka þátt í Erasmus-verkefninu DigitalVET 4 all. Verkefninu er ætlað að skapa rafrænan vettvang fyrir verknámskennara í Evrópu til að deila upplýsingum um kennsluaðferðir sem byggja á upplýsingatækni og sýndarveruleika. Þessu verkefni er stýrt frá Finnlandi en aðrir samstarfsaðilar eru frá Póllandi, Slóveníu og Eistlandi.

Á næstu vikum fara bæði kennarar og námsráðgjafar úr VMA með stuðningi Erasmus til annars vegar Kaupmannahafnar og hins vegar Helsinki og Lahti í Finnlandi í svokallaðar starfsspeglunarheimsóknir, en þar gefst tækifæri til þess að kynnast og fá ný sjónarhorn á sambærileg verkefni og starfsmenn VMA vinna að.

Í lok þessa mánaðar er væntanlegur hópur bókmenntakennara frá Suður-Frakklandi sem mun m.a. heimsækja VMA. Hinir frönsku gestir eru einnig styrktir af Erasmus. Einnig eru væntanlegir í VMA gestir frá Skandinavíu með stuðningi Nordplus.