Fara í efni

Kynningar á Randers-ferðinni og Pálínuboð

Ánægðir VMA-nemar með ferðina til Randers.
Ánægðir VMA-nemar með ferðina til Randers.

Það er í senn þroskandi fyrir nemendur og kennara að taka þátt í erlendum samstarfsverkefnum. Erasmus+ verkefnið sem ber yfirskriftina Ready for the World er nú komið í fullan gang og í því taka þátt nemendur og kennarar í VMA, Morgen College í Harderwiijk í Hollandi og SOSU – Randers Social og Sunhedsskole í Danmörku.

Í september sl. var haldinn undirbúningsfundur í VMA fyrir verkefnið en í síðasta mánuði var komið að því að nemendur og kennarar hittust. Í fysta hluta verkefnisins voru Danirnir gestgjafar, eftir áramót, í febrúar eða mars, er stefnan sett á að fulltrúar VMA og SOSU heimsæki Hollendingana í Harderwiijk og í september á næsta ári tekur VMA á móti nemendum og kennurum skólanna í Randers og Harderwiijk.

En út á hvað gengur verkefnið Ready for the World? Í stórum dráttum felur það í sér að nemendur í skólunum skoði sín samfélög út frá því hvernig þau leggi fólki lið á ýmsan hátt og er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Leitast er við að draga fram sérkenni hvers land í þessu sambandi og t.d. er horft til þess að m.a. verði starfsemi björgunarsveitanna, sem eins og kunnugt er eru mannaðar sjálfboðaliðum, kynnt nemendum hinna skólanna þegar þeir koma í heimsókn í VMA næsta haust. Starfsemi slíkra björgunarsveita er óþekkt í hinum löndunum.

Úr VMA fór 21 nemandi til Randers þann 7. nóvember sl. og var hópurinn ytra í eina viku. Með nemendum fóru kennararnir Valgerður Dögg Jónsdóttir og Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir og Rósa Margrét Húnadóttir, fulltrúi á skrifstofu VMA.

Síðastliðið miðvikudagskvöld hittust nemendur og kennarar og fóru yfir ferðina og í leiðinni var efnt til huggulegs Pálínuboðs þar sem allir komu með eitthvert góðgæti á hlaðborð.

Stór hluti nemendanna sem fór til Randers hefur verið í áfanga í viðburðastjórnun en einnig fóru út aðrir nemendur sem sóttu um að taka þátt í þessu verkefni. Nemendurnir voru með kynningar á ferðinni og drógu þar fram margt skemmtilegt sem fyrir augu bar, hvað þeim fannst vera áhugavert og ganga vel og annað sem þeim fannst ekki ganga eins vel og hefði mátt gera öðruvísi.

Krakkarnir voru sammála um að þetta hefði fyrst og fremst verið skemmtileg og þroskandi ferð, hópurinn hefði verið samstíga og andinn frábær. Hópurinn gisti á móteli í Randers á meðan á dvölinni stóð en síðustu nóttina var gist í Kaupmannahöfn, nálægt Kastrupflugvelli. Á leiðinni frá Randers til Kaupmannahafnar var stoppað í Árósum þar sem hópurinn skoðaði áhugavert safn.

Það kom fram í kynningunum að samskiptin milli nemendahópanna hefðu farið fram á ensku og því hafi óneitanlega verið farið út fyrir þægindarammann með því að henda sér út í djúpu laugina og tjá sig og halda uppi samræðum á öðru tungumáli.

Danski maturinn heillaði VMA-nema ekki upp úr skónum og því voru þeir dyggir viðskiptavinir Burger King og McDonald's í Randers á meðan á heimsóknni stóð. Sumir borðuðu yfir sig af hamborgurum og eru haldnir hamborgarafráhvörfum eftir ferðina!

Kynningar nemendanna í viðburðastjórnun á Danmerkurferðinni sl. miðvikudagskvöld var hluti af lokaverkefni þeirra í áfanganum. En einnig var einn af nemendunum í áfanganum, sem ekki fór til Danmerkur, með góða kynningu á þemavikunni í VMA um kynheilbrigði.

Þátttaka í slíkum evrópskum samstarfsverkefnum víkkar út sjóndeildarhring nemenda, veitir þeim tækifæri til þess að takast á við ný og ögrandi verkefni og kynnast menningu og áherslum annarra þjóða. Ferðin til Randers tikkaði í mörg box fyrir VMA-nemendur og af kynningum þeirra mátti ráða að hún fer svo sannarlega í minningabankann.