Fara í efni

Gögn um byggingu VMA afhent skólanum til varðveislu

Þorsteinn Geirharðsson og Sigríður Huld Jónsdóttir
Þorsteinn Geirharðsson og Sigríður Huld Jónsdóttir

„Ég get ekki neitað því að það greip mig nostalgíutilfinning að ganga hér um skólann, það rifjaðist eitt og annað upp. Ég er mjög ánægður fyrir pabba hönd og sjálfs mín og er stoltur af þessari byggingu. Í gegnum tíðina hef ég fengið mjög jákvæð viðbrögð um þessi húsakynni frá nemendum sem hafa verið hér. Ég tel að almennt megi segja að það hafi verið mikil natni í hönnun og öllum frágangi við húsið. Það eru margar og skemmtilegar efnisáferðir og litir í húsinu. Fólki finnst byggingin margbreytileg og hún vekur sterkar minningar fólks. Það er gefandi og skemmtilegt,“ segir Þorsteinn Geirharðsson arkitekt en sl. föstudag afhenti hann Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara, fyrir hönd VMA, með formlegum hætti mikið magn af gögnum af ýmsu tagi sem arkitekt skólans og faðir Þorsteins, Geirharður Þorsteinsson, hafði haldið til haga og geymt á vísum stað. Um er að ræða vinnugögn sem tengjast hönnun og byggingu Verkmenntaskólans á sínum tíma. Geirharður lést árið 2017. Þorsteinn þekkir líka mjög vel til húsakynna VMA enda starfaði hann um tíma með föður sínum og tók síðan við keflinu og teiknaði nýjustu álmur skólans.

„Verkmenntaskólinn var stærsta verk pabba, hans stóra verkefni. Hann teiknaði reyndar ekki allt húsið því ég tók við verkinu þegar ráðist var í að byggja sjötta áfanga af tíu. Ég hélt áfram með húsið í sama anda og pabbi hafði lagt línur með. Hann og hans samstarfsmenn höfðu lagt grunninn í fyrstu áföngum hússins.
Ég þori ekki að segja hver var grunnhugmynd föður míns við hönnun hússins og útlit þess en ég veit að það var mikill metnaður hjá honum og öllum þeim sem að þessu verki komu í upphafi, þar með talið byggingarnefndinni. Meðal annars var farið til Danmerkur til þess að kynna sér og sjá ýmis framhaldsskólahús og ég veit að pabbi og nefndarmenn voru undir miklum áhrifum af því sem fyrir augu bar í Danmörku. Það sem vekur nokkra athygli, í samanburði við marga framhaldsskóla, er að það var ákveðið að skólinn skyldi vera á einni hæð. Hver nákvæmlega röksemdin var fyrir því veit ég ekki en auðvitað tekur hann mikið landrými og ég vil lýsa skólanum miklu frekar sem skólaþorpi en byggingu,“ segir Þorsteinn

Löng byggingarsaga

Þorsteinn rifjar upp að hönnunar- og byggingarsaga skólans spanni vel á þriðja áratug. Faðir hans og kollegi hans á Vinnustofu arkitekta, Hróbjartur Hróbjartsson, hafi gert samning um hönnun skólans árið 1980. Síðan hafi þeir hætt að starfa saman en Geirharður haldið áfram með hönnun VMA. Árið 1984 var flutt í fyrstu húsin á Eyrarlandsholti og því er skólinn 40 ára á næsta ári.

„Á byggingartímanum urðu auðvitað miklar breytingar á kennsluháttum og þarfirnar breyttust. En engu að síður var sú grunnhugmynd föður míns í fullu gildi að raða saman kubbum, ef svo má segja, og tengja þá með þökum og millibyggingum. En það er ekkert launungarmál að við hefðum kosið aðra forgangsröðun. Það hefði auðvitað verið betra að miðálman hefði verið byggð fyrst og síðan húsið byggst út frá henni. Þess í stað voru í mörg ár byggð stök hús og nemendur og starfsfólk þurfti að fara út til þess að fara á milli þeirra. En ástæðan fyrir því að þessi leið var farin var sú að það var svo mikil þörf fyrir kennslurými og það hafði forgang umfram hið svokallaða félagslega rými, það kom síðast.“

Tók við keflinu af föður sínum

Þorsteinn segir að hann hafi fyrst kynnst hönnun VMA þegar hann á námsárum sínum í arkitektúr starfaði í sumarafleysingum á stofunni með föður sínum. „Ég lauk náminu árinu 1982 en kom heim í lok árs 1983 og fór þá að vinna á teiknistofunni með pabba og við unnum saman í nokkur ár. Ég fór síðan aftur út og lærði iðnhönnun og á þeim tíma söðlaði pabbi um og fór árið 1993 að vinna hjá Skipulagi ríkisins. Þá tók ég við þeim verkefnum sem pabbi hafði unnið að, m.a. VMA,“ segir Þorsteinn

Hann hefur nú lagt arkitektúrinn að mestu til hliðar, þó svo að hann grípi í ýmis verk sem tengjast húsum sem hann hefur hannað. Árið 2019 var Þorsteinn ráðinn til starfa hjá Framkvæmdasýslu ríkisins – sem nú heitir Framkvæmdasýslan – ríkiseignir. Á borði hennar er meðal annars umsjón með byggingum VMA.

„Það má segja að ég hafi hætt með mína teiknistofu í kjölfarið á því að ég lauk hönnun á stækkun D-álmu VMA. Þá fór ég að vinna með félögum mínum á öðrum teiknistofum. Þau gögn frá föður mínum sem ég afhendi nú Verkmenntaskólanum til varðveislu voru í möppum og geymd á vísum stað. Ég hafði látið mér detta í hug að fara í gegnum þessi gögn, grisja þau og henda úr þeim en síðan þegar á hólminn var komið gat ég ekki hugsað mér að gera það. Þarna eru ýmsir persónulegir hlutir sem tengjast byggingunni. Þjóðskjalasafnið hefur tekið þann pól í hæðina að taka bara við upprunalegum teikningum af húsum og nú eru varðveittar þar allar slíkar upprunalegar teikningar af húsum Verkmenntaskólans. Þau gögn sem ég afhendi VMA eru meira vinnugögn af ýmsum toga, vinnuteikningar, minnisblöð og bæklingar um ýmis efni sem voru notuð við byggingu skólans. Þetta gefur ágæta hugmynd um söguna, hvernig skólinn varð til og hvernig hann mótaðist. Þetta hefur verið geymt fyrir sunnan í áratugi en nú er þetta komið hingað. Mér fannst skólinn vera eini rétti staðurinn til þess að varðveita þessi gögn.“

Geirharður Þorsteinsson

Geirharður Jakob Þorsteinsson fæddist á Siglufirði 14. desember 1934. Hann lést á Dvalar-og hjúkrunarheimilinu Grund 4. maí 2017.

Geirharður lauk búfræðinámi frá bændaskólanum á Hvanneyri árið 1952. Síðan lá leið hans í Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1955. Hann fór til náms í vélaverkfræði við Technische Hochschule í München í Þýskalandi en færði sig yfir í arkitektúrinn við sama skóla og stundaði það nám á árunum 1957-1962. Sextán árum síðar bætti hann við sig námi í skipulagsskóla Nordplan í Stokkhólmi.

Arkitektúr og skipulagsmál var vettvangur Geirharðs alla tíð. Hann rak Vinnustofu arkitekta ásamt Hróbjarti Hróbjartssyni í Reykjavík á árunum 1967-83 og rak síðan sína eigin stofu árin 1983-91. Frá ársbyrjun 1992 starfði hann hjá Skipulagi ríkisins.

Eitt af stóru verkefnum Geirharðs var hönnun Verkmenntaskólans á Akureyri en hann hannaði margar fleiri skólabyggingar og heilsugæslustöðvar víða um land. Af skólum sem hann teiknaði má nefna grunnskólana á Hofsósi og í Vík og einnig lauk hann hönnun grunnskólans á Vopnafirði þegar Sigvaldi Thordarson arkitekt féll frá. Geirharður lagði einnig ríka hönd á plóg við mótun borgarskipulags. Hann vann að undirbúningi og hönnun Breiðholtshverfa og síðar við skipulagshönnun efra Breiðholts, Fella- og Hólahverfis og Hjallahverfis í suðurhlíðum Kópavogs.

Ráðningu Geirharðs sem arkitekts og hönnuðar VMA má rekja til þess að hann hafði unnið fyrir skipulagsnefnd Akureyrarbæjar að úttekt og skiplagi svæða fyrir skóla í bænum, m.a. fyrir verkmenntaskóla. Í ljósi þess að Geirharður þekkti vel til mála ákvað bygginganefnd Verkmenntaskóla á Akureyri, sem var kjörin af bæjarstjórn Akureyrar í september árið 1980, að leita til hans um hönnun hins nýja skóla. Bæjarstjórn Akureyrar staðfesti á fundi sínum 25. nóvember 1980 uppkast að verksamningi við arkitektana Geirharð Þorsteinsson og Hróbjart Hróbjartsson.