Fara í efni

Fjarkennsla VMA í tvo áratugi

Ingimar Árnason, kennslustjóri fjarkennslu VMA.
Ingimar Árnason, kennslustjóri fjarkennslu VMA.
Tæplega fimm hundruð nemendur stunda fjarnám á vorönn í VMA sem er svipaður nemendafjöldi og síðustu annir. Fjarnám VMA fagnar 20 ára afmæli á þessu ári. Haukur Ágústsson ýtti því úr vör árið 1994 með því að kenna ensku í gegnum tölvupóst. Síðan hefur fjarnámið dafnað vel og þróast. Ingimar Árnason hefur verið kennslustjóri fjarkennslu VMA síðan 2002.

Tæplega fimm hundruð nemendur stunda fjarnám á vorönn í VMA sem er svipaður nemendafjöldi og síðustu annir. Fjarnám VMA fagnar 20 ára afmæli á þessu ári. Haukur Ágústsson ýtti því úr vör árið 1994 með því að kenna ensku í gegnum tölvupóst. Síðan hefur fjarnámið dafnað vel og þróast. Ingimar Árnason hefur verið kennslustjóri fjarkennslu VMA síðan 2002.

„Ég er kennslustjóri fjarkennslu í 60% starfi og kenni síðan áfanga í vélstjórn á móti. Starf mitt sem kennslustjóri er margþætt. Ég er eðlilega í miklum samskiptum við nemendur og reyni að svara þeim spurningum sem vakna, til dæmis hvernig best er fyrir nemendur, sem t.d. stefna á stúdentspróf,  að setja saman sitt nám og hvaða áfanga nemndur þurfa að taka til þess að ljúka námi. Þetta á að sjálfsögðu líka við um aðra nemendur, til dæmis þá sem eru í meistaraskólanum og sjúkraliðanámi, svo dæmi séu tekin.  Fyrirspurnum frá nemendum um námsframvindu hefur hins vegar fækkað frá því sem áður var því nemendur hafa aðgang að Innu og geta þannig séð hvað þeir eru búnir með og hvaða áfanga þeir eiga eftir að taka.
Ég tek við skráningum nemenda í áfanga og sé um samskipti við þá kennara sem kenna námskeiðin. Flestir þeirra eru hér innanhúss en við þurfum einnig að leita til nokkurra kennara utan skólans. Síðan er töluvert mikið mál að skipuleggja próf fjarnemenda. Þá eigum við gott samstarf við skóla eða símenntunarmiðstöðvar út um allt land til þess að nemendur geti tekið skrifleg próf í viðkomandi grein eða greinum heima í héraði. Í tveimur áföngum erum við með rafræn próf en engu að síður er gerð sú krafa að viðkomandi nemendur taki þau á prófstað.“

Ingimar segir að með hverju árinu sem líður verði rafræn samskipti auðveldari og betri og jafnframt hafi tölvukunnátta fólks aukist. Fjarnámið gangi því í öllum atriðum vel fyrir sig. Hann segir að vefurinn hafi að sjálfsögðu breytt miklu og nú sé utanumhald fyrir hvern áfanga komið inn í kennslu- og samskiptakerfið Moodle, sem allir nemendur fá aðgang að og eiga þar samskipti við sína kennara.

„Það hafa orðið miklar breytingar frá því að Haukur Ágústsson hóf að kenna ensku árið 1994 með tölvupósti. Þá var hann í raun að tölvuvæða gamla bréfaskólann. Það var og er grunnhugmyndin en síðan hefur þetta þróast í tímans rás með vefnum og samskiptatækjum sem hann býður upp á. Tækninni fleygir fram á ári hverju og til marks um það geta nemendur nú myndað verkefnablöðin með símunum sínum og sent til kennarans.“

Sem fyrr segir eru tæplega 500 nemendur í fjarnámi núna á vorönn. Þessir nemendur eru út  um allt land og einnig erlendis, þótt þeim hafi af einhverjum ókunnum ástæðum fækkað nokkuð á undanförnum árum. „Mér sýnist að núna sé meirihluti fjarnemenda framhaldsskólanemendur, þar af eru um 160 nemendur í dagskóla hér í VMA. Þessir nemendur eru að bæta við sig áföngum af ýmsum ástæðum, meðal annars til þess að flýta fyrir sér í námi og í einhverjum tilfellum eru nemendur í fámennari framhaldsskólum að taka hér áfanga sem ekki er boðið upp á á þessari önn í viðkomandi skólum.
Þá eru 40-50 nemendur í meistaraskólanum í fjarnámi, en við bjóðum hér upp á allt bóklegt nám meistaraskólans, að frátöldum þeim áföngum sem eru sérmerktir greinum og kenndir á námskeiðum hjá Iðunni. Rafvirkjar taka 26 einingar hjá okkur í rekstrargreinum og almennu námi og þurfa síðan að bæta við sig 30 einingum í Rafiðnaðarskólanum.“

Ingimar bætir við að nú séu átján nemendur í 10. bekk grunnskóla skráðir á svokallaða matsönn í VMA, sem eins og greint hefur verið frá hér á heimasíðunni er ákveðin leið sem VMA býður nemendum á síðustu önn í grunnskóla. Hún felst í því að nemendur taka í fjarnámi byrjunaráfanga í einum eða fleiri undirstöðugreinum og taka síðan próf í þeim í vor. Þegar síðan þessir nemendur hefja nám í dagskóla í VMA í haust hafa þeir lokið grunnáfanga eða –áföngum og fara þá í framhaldsáfanga í viðkomandi námsgrein.  Með þessu móti geta nemendur flýtt fyrir sér í námi til t.d. stúdentsprófs. Ingimar segir að flestir þessara átján nemenda á þessari matsönn taki einn áfanga en dæmi er um nemanda sem er skráður í þrjá áfanga.

Ingimar Árnason hóf að kenna stærðfræði og vélstjórnargreinar við VMA árið 1991. Hann tók síðan við af Hauki Ágústssyni árið 2002 sem kennslustjóri fjarkennslu og hefur gegnt því starfi í tólf ár. Á sínum tíma lærði hann ketil- og plötusmíði í Iðnskólanum á Akureyri og starfaði í því fagi í nokkur ár í Slippstöðinni. Fór síðan í tveggja ára nám í svokallaðri undirbúnings- og raungreinadeild í Tækniskólanum. Fyrra ár þess náms, sem er sambærilegt við nám til svokallaðs tæknistúdents, var kennt í Iðnskólanum á Akureyri en seinna árið, skólaárið 1984-1985, var fyrsta starfsár Verkmenntaskólans. Ingimar var því nemandi í VMA þegar skólinn hóf starfsemi fyrir þrjátíu árum. Haustið 1985 fór Ingimar til Danmerkur í véltæknifræði og starfaði síðan í því fagi hjá Vélsmiðjunni Odda þar til hann var ráðinn til VMA árið 1991. Uppeldis- og kennslufræði tók hann síðan í gegnum Kennaraháskólann.