Fara í efni

Málmurinn heillar

Fullbókað er í grunndeild málm- og véltæknigreina.
Fullbókað er í grunndeild málm- og véltæknigreina.

Á árunum fyrir efnahagshrunið átti málmiðnaðarnám í vök að verjast í VMA, í nokkur ár í röð var fremur lítil aðsókn í það nám. En hrunið breytti áherslunum á ýmsan hátt í samfélaginu, þar á meðal jókst áhugi ungs fólks á verklegu námi og í nokkur ár hefur verið fullbókað í grunndeild málm- og véltæknigreina í VMA. Svo er einnig nú.

Hörður Óskarsson, brautarstjóri málmiðngreina, segir að hámarks nemendafjöldi í grunndeild málm- og véltæknigreina sé sextíu en töluvert fleiri hafi sótt um að komast í námið núna á haustönn. Það sama hafi verið uppi á teningnum undanfarin ár, fleiri hafa sótt um en unnt hefur verið að taka inn. Hörður segir greinilegt að ungt fólk hafi áhuga að afla sér þessarar menntunar og það sé vel.

Allur gangur er á því hvert nemendur í grunndeildinni stefna en t.d. þurfa þeir að að hafa lokið tveimur önnum í grunndeildinni áður en þeir geta innritað sig í vélstjórnarnám  eða bifvélavirkjun í VMA

„Stór hluti nemendanna í grunndeildinni kemur beint úr 10. bekk grunnskóla og mér sýnist þeir vera alls staðar að af landinu. Það er áberandi margir nemendur utan Akureyrar í þessu námi,“ segir Hörður.