Fara í efni

Logsuðan er grunnurinn

Einbeittur í logsuðunni.
Einbeittur í logsuðunni.

Logsuða er fyrsti suðuáfanginn sem nemendur í grunndeild málm- og véltæknigreina taka í námi sínu og á seinni stigum í náminu spreyta nemendur sig á öðrum suðuaðferðum.

Stefán Finnbogason kennari segir að í þessum fyrsta suðuáfanga sé í byrjun lögð áhersla á að kynna nemendum hvernig beri að vinna með og umgangast gashylki, logsuðu- og logskurðartæki. Einnig eru nemendur upplýstir rækilega um þær hættur sem geta verið því samfara að sjóða – varðandi til dæmis brunahættu vegna loga, neistaflugs o.fl. Þá er lögð áhersla á að kynna vel nauðsynlegan hlífðarfatnað og hlífar. Stefán segir að nemendur læri logsuðuna alltaf fyrst og hún sé sá grunnur sem þeir byggi síðan ofan á á síðari stigum.

Þegar litið var í kennslustund hjá Stefáni voru nemendur önnum kafnir við að æfa sig í suðu. Slíkar verklegar æfingar eru í fjórar kennslustundir í viku og er tíminn vel nýttur enda er það svo að í þessu eins og svo mörgu öðru gildir hið forkveðna að æfingin skapar meistarann.